150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna áðan en mig langar við þetta tækifæri að koma inn á nokkur atriði sem ég held að sé nauðsynlegt að verði skoðuð í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar málinu verður vísað þangað síðar í dag. Atriðin sem mig langar til að koma inn á snúa til að byrja með að þeim skorðum sem settar eru samkvæmt því frumvarpi sem hér er rætt um, um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar eins og það heitir. Þetta er bandormur eins og efnið ber með sér og ég ætla að fara í gegnum frumvarpið grein fyrir grein þannig það sé betra samhengi í því sem hér er sagt.

Hvað 1. gr. varðar, þar sem lögð er til breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, vil ég fá að nefna þá skilgreiningu sem þar er tilgreind. Við mat á því hvort um tekjufall er að ræða skal miða við a.m.k. þriðjungssamdrátt í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð 2019.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Ekki er um rekstrarörðugleika að ræða, þótt tekjufall komi til, ef launagreiðandi á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði eða á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga.“

Það er seinni málsgreinin sem ég vil vekja athygli á og gera athugasemd við. Það er skrýtið ef skilaboðin frá þinginu í því ástandi sem nú gengur yfir séu þau að atvinnurekendur skuli losa og setja frá sér allt laust fé áður en hægt sé að skilgreina þá í rekstrarörðugleikum þannig að lausnirnar komi til. Málsgreinin er tiltölulega skýr og skilur eftir lítið svigrúm til skilgreiningar. Það er einfaldlega sagt: Ekki er um rekstrarörðugleika að ræða þótt tekjufall komi til ef launagreiðandi á laust fé til að borga reikninga sem eru fallnir á gjalddaga. Það þýðir að fyrirtæki landsins skulu setja út hverja krónu sem til er á reikningum þess félags áður en lausnirnar, sem snúa m.a. að frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda, koma til. Þingið getur ekki sent þessi skilaboð. Allir sem hafa komið að rekstri eða hafa á skilning á rekstri þekkja mikilvægi lausafjár í svona stöðu. Við getum ekki skilið svona við málið og þetta verður að laga í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, við getum ekki sent þau skilaboð út til fyrirtækja að á meðan þau eiga eitthvert laust fé á reikningum félagsins verði félagið ekki skilgreint þannig að það eigi í rekstrarörðugleikum.

Ég vildi segja þetta við þetta tækifæri. Annars vegar ber þessi texti það með sér að ef launagreiðandi á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu skuli hann ekki skilgreinast þannig að um rekstrarörðugleika sé að ræða. Sem betur fer eiga mörg félög eignir og annað sem hægt er að veðsetja en eigið féð er að mjög stórum hluta til bundið í eignum sem verður ekki umbreytt í lausafé innan dagsins. Þessi texti ber með sér að ekki sé mikill skilningur á þeirri stöðu sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir í augnablikinu.

Þetta er það sem ég vildi segja um 1. gr. og ég vona að í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar verði þessi sýn á rekstrarörðugleika endurstillt því að þetta er ekki boðlegt.

Næst vil ég koma inn á 4. gr. þar sem fjallað er um breytingu á tollalögum. Þar er tilgreint að horft sé til þess að aðilar sem borga aðflutningsgjöld af vörum fái helmingi gjalda tveggja mánaða uppgjörstímabils frestað um 20 daga umfram það sem núverandi regluverk segir til um. Ég held að því miður sé þetta bitamunur en ekki fjár hvað rekstrarstöðu þessara félaga varðar. Mig langar þó við þetta tækifæri að benda á að þessi aðgerð virðist metin upp á 14 milljarða í heildaráhrifum hvað varðar kynningu ríkisstjórnarinnar sl. laugardag í Hörpu. Það að fresta helmingi innflutnings- og aðflutningsgjalda fyrirtækja um 20 almanaksdaga skilur ekki mikið súrefni eftir í kerfinu. Hugsa ég þá til að mynda til bílgreinarinnar og annarra innflutningsaðila.

Næst langar mig að nefna 5. gr. þar sem er fjallað um breytingu á lögum um virðisauka, hið svokallaða Allir vinna ákvæði. Ég held að það sé mjög gott að þetta ákvæði sé endurvakið eða bætt í þessa lausn eins og hún liggur fyrir og við þekkjum og hefur verið notuð áður. Ég vil þó beina því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að það verði skoðað að fella aðra þætti atvinnulífsins þarna undir. Mig langar aftur að nefna bílgreinina sem dæmi. Í kringum bankahrunið 2008 héldu menn aftur af sér í miklum hluta viðhaldsverkefna heimila og fyrirtækja, í lagfæringu og viðhaldi ökutækja. Það er tilhneiging til að slík verkefni fari inn í bílskúra hér og þar um bæinn í stað þess að vera unnin á verkstæðum sem eru til þess ætluð. Ég held að í því samhengi væri skynsamlegt að skoða að útvíkka Allir vinna nálgunina á fleiri geira og ég nefni bílgreinina sérstaklega í þessu sambandi.

Annað sem ég vil nefna í tengslum við virðisauka varðar sveitarfélögin. Ég held að það væri ástæða fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða alvarlega hvort ekki sé ástæða til að bæta við heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga. Það eru framkvæmdir sem geta komist hratt af stað og eru umfangsmiklar hjá þeim sveitarfélögum sem eru með verkefnin tilbúin og hönnuð. Þau eru þó nokkur þannig að skynsamlegt væri að skoða það.

Síðasta atriðið sem ég vil nefna varðandi virðisaukann snýr að gjalddaganum sem er á eindaga 6. apríl nk. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra í því sem fram kom fyrr í dag við umræðuna frá honum þar sem hann sagði efnislega að virðisaukaskatturinn væri eðlisólíkur þeim gjöldum sem væri verið að veita frest á greiðslum á. Ég ætla ekki að eyða tíma í að útskýra þann eðlismun en ég er efnislega sammála því. Núna eru aðstæður hins vegar mjög óvenjulegar og þess vegna vil ég beina því til efnahags- og viðskiptanefndar að skoða þennan eina gjalddaga sem er næsti gjalddagi virðisauka, 6. apríl nk., því að þá verða til greiðslu töluvert margir reikningar útgefnir af fyrirtækjum sem hafa ekki fengist greiddir. Ég tel að það verði venju fremur hátt hlutfall sem þannig er ástatt um og þá er staðan sú að atvinnufyrirtæki gefur út reikning og ber að skila virðisaukanum af honum en reikningurinn færist í rauninni bara á útistandandi kröfur í bókhaldi. Fyrirtækið þarf að leggja út fyrir virðisaukanum en er ekki búið að fá virðisaukann til baka inn í sinn rekstur af þeim reikningum sem ógreiddir eru á þeim tímapunkti. Ég held að alveg sé tilefni til að skoða þennan eina gjalddaga sérstaklega, án þess að ég sé með útfærða tillögu að því, skoða hvort ástæða sé til að setja hann í einhvern frestunarfasa án þess að þurfa að víkja frá því sjónarmiði sem ég skil og er sammála og held alltaf til haga. Þegar ég tala um að akstur og ökutæki séu skattpínd verulega á Íslandi held ég alltaf virðisaukanum til hliðar í því sambandi. Ég skil það sjónarmið að virðisaukinn sé eðlisólíkur öðrum gjöldum sem hér eru til umræðu en þessar fordæmalausu aðstæður gefa fullt tilefni til að skoða það sérstaklega.

Hvað 6. gr. varðar, þá sem snýr að gistináttagjaldinu, fagna ég því að gistináttagjaldið sé fellt niður núna þó að það sé tímabundið. Persónulega held ég að við ættum að fella það ólukkans gjald niður varanlega, en það verður vonandi seinni tíma aðgerð. Eins og hæstv. ríkisstjórn hefur sagt svo skýrlega er þetta fyrsta skref, hið minnsta, vonandi af mörgum sem þarf að stíga sem viðbrögð við þeirri stöðu sem uppi er. Svo ég sé líka jákvæður fagna ég því að gistináttagjaldið falli niður til loka árs 2021.

Í 7. gr. er fjallað um séreignarsparnaðinn. Þar er horft til þess að opnað verði fyrir heimild til útgreiðslu 12 milljarða til eigenda séreignarsparnaðar og þar eru ýmsar tæknilegar útfærslur. Rétt er að halda til haga að þarna er um leið tekjuöflun fyrir ríki og sveitarfélög sem minnkar nettóáhrifin af því útstreymi sem verður úr ríkissjóði við þær aðgerðir sem kynntar voru í Hörpu. Ef þetta eru 12 milljarðar eru skattalegu áhrifin til baka væntanlega á bilinu 4–5 milljarðar en ég held að það sé stutt í að við verðum að taka þá umræðu hvort séreignarsparnaðurinn sé nauðsynlegur eða ekki. Ég er fylgjandi þessari aðgerð en við erum snögg til að opna fyrir þennan krana. Þetta var gert í efnahagshruninu og leiðréttingunni og síðan aftur núna. Áhrifin eru þau að fólk er gjarnt á að núlla út stöðu sína hvað séreignarsparnað varðar þegar þessi tímabundnu efnahagsáföll ganga yfir.

Síðan vil ég fá að koma inn á 11. gr. í lokin. Hún snýr að tekjustofnum sveitarfélaga og ég fagna þeirri útfærslu. Ég held að það sé skynsamlegt að kippa tímabundið úr sambandi þeim tveimur viðmiðum sem snúa að skuldahlutfalli og rekstrarstöðu sveitarfélaganna og styð heils hugar að það sé gert efnislega með þeim hætti sem hér er lagt til.

Það hefur svo sem komið fram að almennar efasemdir eru um hvort nógu langt hafi verið gengið í þessum fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég er ánægður með að skýrt hefur verið talað í þeim efnum að ríkisstjórnin lítur ekki svo á að þarna sé um heildaraðgerð og lokaaðgerð að ræða heldur sé þetta fyrsta skref af fleirum. Ég hvet ríkisstjórnina og hæstv. fjármálaráðherra til að skoða það að halda fyrr en seinna sambærilegan fund við þann sem haldinn var í Hörpu á laugardaginn. Ég hef ákveðnar efasemdir um að nógu langt hafi verið gengið, jafnvel þótt bara sé um fyrsta skref að ræða, og vil ég í þessu samhengi nefna tryggingagjald og almenna þörf fyrir að lækka skatta. Innbyggða sveiflujöfnunin í skattkerfi sem nokkuð hefur verið nefnd hér síðustu daga er til komin vegna þess að með minna umfangi minnka skattar augljóslega hratt. Skattheimtan færi úr öllum böndum í núverandi árferði ef innbyggðir sveiflujafnarar væru ekki í kerfinu.

Ég vil að endingu segja það sem margoft hefur verið sagt í umræðum síðustu daga, að það er áhættuminna að gera of mikið en of lítið þessa dagana, og ég hvet stjórnvöld til að nálgast málið með þeim hætti. Undir lok þessarar ræðu minnar ítreka ég það sem ég sagði í byrjun, það gengur ekki, eins og fram kemur í 1. gr. þessa frumvarps, að skilja fyrirtæki eftir með þau skilaboð að ekki sé um rekstrarörðugleika að ræða, þótt tekjufall komi til, ef launagreiðandi á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði eða á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga. Þarna er verið að senda þau skilaboð (Forseti hringir.) að fyrirtæki landsins skuli hreinsa sig að fullu af lausafé áður en þau verða tæk til þess að vera metin í rekstrarörðugleikum.

Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er ekki alveg sammála þessari túlkun minni. Ég vona að hún sé röng en svona stendur þetta hérna. (Gripið fram í.)