150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna um þessi fyrstu úrræði eða með fyrstu úrræðum fyrir efnahagslífið. Þarna er margt ágætt og ég ætla ekki í sjálfu sér að eyða miklum tíma í yfirboð en bendi þó vissulega á það sem betur mætti fara. Ég held að almennt sé ágætt að hafa í huga að þetta er ekki tími pólitískra yfirboða. Þetta er ekki tími einhverra ímyndarherferða á samfélagsmiðlum hjá stjórnmálaflokkum eða eitthvað þess háttar. Þetta er tíminn þar sem við eigum öll að taka höndum saman, slíðra sverðin og tryggja að við séum að gera það sem við eigum alla jafna að vera að gera hér, að vinna landi og þjóð gagn.

Það er tvennt sem ég staldra við í fyrstu lotu í meginatriðum þessa máls, annað er það sem snýr að greiðslufresti á opinberum gjöldum fyrir fyrirtæki. Ég fagna þeim greiðslufresti sem þarna er veittur gagnvart staðgreiðslu. Ég tel að þetta úrræði geti gagnast mjög mörgum fyrirtækjum alveg ágætlega. Við sjáum umfang vandans þegar við sjáum t.d. tilkynningu frá Icelandair í dag þar sem mér sýnist í fljótu bragði að um 97% starfsmanna fari ýmist í verulega skert starfshlutfall eða sé sagt upp. Sem betur fer fær mikill minni hluti uppsagnarbréfið en engu að síður fá um 5% starfsmanna uppsögn og 92% því til viðbótar fara í verulega skert starfshlutfall. Þetta sýnir umfang vandans og það er einfaldlega ekki til nein uppskriftabók að lausn á þessum vanda. Þetta er allt öðruvísi vandi fyrir þorra atvinnulífs og heimila en var í hruninu þó að þegar upp verður staðið kunni efnahagslegu áhrifin að verða jafn alvarleg og þá var. Við horfum einfaldlega á þann reginmun að fyrir rúmum áratug, þegar við vorum á leiðinni inn í hið mikla efnahagslega hrun, tókst þorri atvinnulífsins á við það frá mánuði til mánaðar í einhvers konar brekku niður á við. Ef bankakerfið er undanskilið sem hrundi á endanum á einni nóttu var þorri atvinnulífsins í sjálfu sér í lífróðri mánuðum saman, vel á annað ár sem við getum sagt að sú kreppa hafi verið að koma fram. Hér horfum við hins vegar á fullkominn tekjubrest fyrir þorra atvinnulífsins horft til næstu tveggja til þriggja mánaða hið minnsta og vafalítið langvinnari vanda fyrir ferðaþjónustuna. Ég held þess vegna að við þurfum aðeins að passa okkur á því að það er ekki sjálfgefið að lausnirnar frá hruni passi sjálfkrafa inn í þetta. Fjölmargt af þessu er ágætt en ég held að á fjölmörgum atriðum þurfi að skerpa sérstaklega.

Ég horfi á bráðaaðgerðirnar til fyrstu þriggja mánaða sem forgangsatriði í umfjöllun þingsins núna í vikunni. Hér eru fjölmörg atriði sem munu gagnast til lengri tíma litið og eru mjög góð. Sjálfsagt mætti bæta þar í þegar fram í sækir en forgangur okkar hlýtur núna að vera það sem skiptir máli og skilur á milli feigs og ófeigs í atvinnulífinu og þar með í störfum almennings næstu þrjá mánuðina eða svo.

Ég hefði viljað sjá almennt úrræði um greiðslufrest á opinberum gjöldum til næstu þriggja mánaða hið minnsta sem tæki líka til virðisaukaskatts og tollkrítarinnar svokölluðu, aðflutningsgjalda í tolli. Ég skil, eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra í andsvari áðan, þann vanda að auðvitað viljum við ekki að fyrirtæki nýti úrræðin ef þau þurfa ekki á þeim að halda. Það mætti alveg útfæra það með einhvers konar vaxtareikningi á greiðslufresti en ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við horfum á fullkominn tekjubrest og hættuna á því að greiðslumiðlun atvinnulífsins frjósi algjörlega á næstu vikum og mánuðum að ríkið taki af alvöru sénsinn á innlendu atvinnulífi með því að veita því almennt þann greiðslufrest á opinberum gjöldum sem hægt er. Það á þá að taka til allra opinberra gjalda. Ég tek undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni þegar hann bendir á tollkrítina. Það munar ekki mjög miklu hvort menn þurfa að greiða hana alla 15. næsta mánaðar eða fá 20 daga viðbótarkrít á helminginn. Í svona fordæmalausum aðstæðum held ég að það sé full ástæða til þess með sama hætti og með virðisauka að geta veitt greiðslufrest í það minnsta næstu þrjá mánuðina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin skoði það sérstaklega.

Í öðru lagi óttast ég að við flækjum í það minnsta til skemmri tíma litið um of þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla. Eiginlega veit enginn í hvaða stöðu fyrirtæki verður eftir mánuð eða tvo eða þrjá. Þess vegna er eðlilegt viðbragð hjá fyrirtækjum að leita allra leiða til að tryggja lausafjárstöðu sína næstu vikurnar. Við í þessum sal höfum oft sagt: Það er betra að gera meira en minna. Undir þeim formerkjum finnst mér auðveldara að leggja embættismennina aðeins til hliðar, ef það mætti orða það þannig, og horfa í gegnum fingur okkar með það hvort mögulega séu einhverjir að nýta þetta sem þegar upp verður staðið hefðu ekki þurft á því að halda. Ég held að það sé miklu betra að horfa til þess, einmitt til að verja greiðslumiðlunina þannig að fyrirtækin geti borgað reikningana sína, a.m.k. flest hver, og haldið þannig lágmarksgreiðslumiðlun í gangi í atvinnulífinu, að ríkið sé tilbúið að taka dálítið sénsinn núna á atvinnulífinu og að það geti þá borgað gjöldin þegar við komum út úr krísunni. Þess vegna held ég að það sé hyggilegt að ganga lengra en skemmra í þessu og þar með talið að við setjum ekki of stíf viðmið. Hins vegar væri einföld lausn, hæstv. fjármálaráðherra, í því samhengi að vaxtareikna greiðslufrestinn. Það er kannski ágætistrygging á því að fyrirtæki leggi þó það til grundvallar þegar þau velja hvort þau nýti frestinn eða ekki að hann beri vexti.

Að öðru leyti er hér margt hreint ágætt og ég fagna t.d. inneign á landsmenn til að nýta í innlenda ferðaþjónustu þegar við komum út úr krísunni. Það má vel vera að það sé hægt að breyta eða auka í en ég ætla ekki að vera í hópi þeirra sem gera grín að því að fjárhæðin sé lág. Það gefur augaleið að hér er fyrst og fremst vitundarvakning fyrir landsmenn, smáinneign fyrir okkur öll til að nýta í innlenda ferðaþjónustu í sumar og hvetja okkur um leið til að nýta þjónustu hennar í gegnum sumarið. Mér finnst þetta að mörgu leyti gott skref.

Enn og aftur er varðandi virðisaukaskattinn um mjög kunnuglegt ákvæði að ræða. Við höfum leikið okkur að því í þessum sal að taka endurgreiðsluhlutfallið úr 60% í 100% og niður í 60% aftur um allnokkurt árabil. Það nýtist ágætlega og gæti verið rakið til að örva innlenda eftirspurn þegar út úr veirufaraldrinum sjálfum er komið, en ég tek undir með öðrum þingmönnum hér að þá mætti líka horfa til þess hvort við getum útvíkkað það. Viðhald á bifreiðum er ágætisdæmi, við gætum útvíkkað það með einhverjum hætti inn í stærri útgjaldaliði, kannski pakkaferðir í innlendri ferðaþjónustu í gegnum sumarið. Ég held að við munum þurfa mjög á því að halda þegar út úr þessari bráðastöðu verður komið að örva innlenda eftirspurn að nýju. Það er ekkert forgangsatriði við afgreiðslu þingsins akkúrat núna en það væri gott að huga að því á næstu vikum hvernig við gætum gert þetta úrræði enn þá bitmeira.

Úrræðið um útborgun séreignarsparnaðar er að mörgu leyti ágætt líka. Þetta gæti ýtt undir og örvað innlenda eftirspurn enn frekar. Ég ætla ekki að málalengja þetta mjög mikið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í efnahags- og viðskiptanefnd takist á næstu dögum gott samstarf um nánari útfærslu á þeim úrræðum sem hér er að finna og að við tryggjum að þessi fyrstu fallbyssuskot sem hleypt er af, ef svo mætti orða, til að styðja við íslenskt atvinnulíf og heimili á komandi vikum geigi ekki, að þau virki sem skyldi. Ég ítreka enn og aftur að við sjáum t.d. í verki umfangið á því úrræði sem samþykkt var í síðustu viku varðandi hlutaatvinnuleysi og hversu mikilvægt var að gott samstarf tókst um að útvíkka og efla það úrræði enn frekar. Ég held að það sé ásamt mögulegum greiðslufrestum á opinberum gjöldum og eftir atvikum með niðurfellingu, eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á í máli sínu, til lengri tíma litið það sem mestu máli muni skipta þegar upp verður staðið í efnahagsaðgerðum við þessar fordæmalausu aðstæður.