150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég er með nokkrar áréttingar eða vangaveltur. Ég þakka fyrir það mál sem hér er komið fram. Mig langar að taka undir hvert orð sem hv. þm. Bergþór Ólason fór með í ræðustól rétt áðan. Á næstu dögum er mikilvægt að hlusta í nefndinni, sem mun fjalla um þetta mál og önnur mál sem við munum ræða í dag eða klára til nefndar, eftir athugasemdum og reyna að bæta eftir því sem hægt er þær tillögur sem hér eru. Við þökkum að sjálfsögðu fyrir þær tillögur sem lagðar eru fram.

Mig langar að taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni varðandi eigið fé fyrirtækjanna. Þar þarf að fara varlega þannig að við tökum ekki allan kraftinn úr þeim fyrirtækjum sem þó eru eftir.

Kannski er ég að misskilja en í 1. gr. sýnist mér talað um þann tíma sem fyrirtæki geta miðað við þegar verið er að skoða tekjufallið. Þá eru það vitanlega einhver fyrirtæki sem hafa ekki starfað í heila 12 mánuði heldur hafa starfað í styttri tíma, tíu mánuði eða guð má vita. Þetta þarf að skoða líka.

Mig langar að nota tækifærið til að vara enn og aftur við því að mat á þeim sem þurfa og þurfa ekki aðstoð sé í höndum fjármálastofnananna. Það þarf að vera mikið og ítarlegt eftirlit með því hvernig að því er staðið þannig að ekki verði til einhvers konar freisting til að mismuna félögum þegar kemur að því að leita sér hjálpar.

Síðan er hér talað um hvað teljist varanlegir rekstrarerfiðleikar. Þar þarf líka að horfa til þess að fyrirtæki voru sum hver komin í ákveðinn vanda vegna almenns samdráttar í samfélaginu áður en þessi skrambans Covid-veira náði til okkar. Fyrirtæki voru þó jafnvel farin að sjá til lands í rekstri sínum með öflugu vori og sumri en nú þarf með einhverjum hætti að horfa til þessara fyrirtækja og þessa tíma með opnum huga, ekki eingöngu horfa á tölurnar. Einhverjir hafa notað orðin lífvænleg fyrirtæki sem mér finnst ekkert sérstaklega skemmtileg á þessum tímum, en fyrirtæki voru lífvænleg kannski fyrir áramót, í nóvember eða desember, þrátt fyrir samdrátt en eru nú kýld í magann eða höfuðið með þessari nýju veiru. Fyrirtæki sem nú eru kannski talin eiga erfitt með að lifa voru mjög lífvænleg fyrir nokkrum mánuðum og eru það ef og þegar allt fer af stað aftur sem verður að sjálfsögðu einhvern tímann.

Ég tek undir það sem sagt hefur verið um tryggingagjaldið. Það hefði verið betra að fella það alveg niður og vinna sig svo til baka með það.

Barnabæturnar eru gott mál. Ef ég skil þetta rétt koma þær reyndar til greiðslu í ágúst. Það er gott fyrir þá sem njóta þeirra þá.

Hér hefur verið talað um aðflutningsgjöldin og tek ég undir það sem um þau hefur verið sagt.

Mig langar síðan aðeins að nefna séreignarsparnaðinn. Það er jákvætt að fólk eigi sparnað og fyrir suma kann að vera jákvætt að geta tekið hann út en með því erum við að segja að vegna þessarar óvæntu og ófyrirsjáanlegu veiru eða þeirra aðstæðna sem hér eru núna eigi þeir sem eiga sparnað að greiða fyrir þetta óhapp eða þessa óvæntu uppákomu með sparnaðinum sínum. Ef ég skil það rétt ætlar ríkið meira að segja að taka einhverja milljarða í skatt af sparnaðinum sem á að nota til að bregðast við þessum aðstæðum. Það held ég að sé ekki rétt að gera. Í fyrsta lagi held ég að það sé rangt að taka skatt af útgreiðslunum og í öðru lagi held ég að það hefði verið betra að setja meira af beinum fjármunum frá ríkisvaldinu inn í þetta en að ganga á sparnað heimilanna og einstaklinganna.

Fjármálaráðherra hefur sagt að þetta séu fyrstu skrefin. Hann hefur sagt og boðað að eftir athugasemdum og tillögum verði hlustað. Við höfum lagt fram ákveðnar hugmyndir og munum gera það áfram. Við vonumst til þess að vel verði hlustað eftir þeim og vonandi tekið mark á þeim að einhverju leyti. Núna er mikilvægt að þær lausnir sem boðið er upp á virki fljótt og séu ekki flóknar. Ef fyrirtæki og einstaklingar sjá fram á að þurfa að fara að eyða miklum tíma og fjármunum jafnvel í lengri tíma í umsóknir eða sérfræðingaráðgjöf o.s.frv. dregur það kraftinn úr fólki sem þarf núna á því að halda að því sé blásinn byr í brjóst, að núna sé verið að létta undir, ekki búa til kerfi sem er of flókið og gerir of miklar kröfur. Það er nokkuð sem við eigum að forðast.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vonast að sjálfsögðu til að þetta mál fái góða umfjöllun í nefnd. Það er mikilvægt að nefndin fái tíma til að fjalla vel um málið og koma eftir atvikum með nauðsynlegar athugasemdir og breytingar.