150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[13:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi míns máls hvetja hæstv. ráðherra til góðra verka og get fullyrt úr þessum stól að Samfylkingin styður að sjálfsögðu allar góðar hugmyndir sem þaðan berast. Ég veit að hér eru allir að reyna að gera sitt besta. Mig langar hins vegar að draga fram nýstárlega hugmynd í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er. Við hæstv. ráðherra þekkjum neyðarástand, þegar bankahrunið varð sátum við báðir á þingi og þá þurfti að hugsa hratt og þurfti að hugsa út fyrir boxið. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé til í að styðja það að við hleypum fleiri að stefnumótun og hugsun þegar kemur að leiðum og lausnum við þessari krísu. Hér á ég ekki bara við stjórnarandstöðuna heldur ekki síður fólk og fyrirtæki í landinu. Hér mætti setja á fót einhvers konar rafrænan þjóðfund þar sem fjármálaráðherra og ríkisstjórn myndu kalla eftir tillögum úr atvinnulífinu og frá almenningi um hvernig við getum öll brugðist saman við þessari vá. Þetta verður erfiður tími. Við getum svo sannarlega komist upp úr þessu (Forseti hringir.) en þetta væri að mínu mati sniðug hugmynd til að nýta sér hugmyndaauðgi íslensks atvinnulífs og íslenskra heimila.