150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[13:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri einmitt sniðugt að útvíkka aðeins þetta samráð. Reynslan sýnir að hinir stóru eiga ágætisaðgengi að stjórnvöldum hverju sinni og ég held að við þurfum að hafa í huga að hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi eru lítil og meðalstór fyrirtæki, ábyrgð fyrir um 70% af starfsfólki og 70% af heildarlaunum í okkar samfélagi má rekja til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að langstærstum hluta reyndar til örfyrirtækja. Ég hef einfaldlega áhyggjur af því að þessi fyrirtæki eigi hugsanlega ekki nægilega gott aðgengi eða málsvara þegar kemur að því að móta þær lausnir sem þarf að ráðast í. Það er fyrst og fremst mín nálgun. Rafrænn þjóðfundur myndi henta þeim fyrirtækjum vel að mínu mati en sömuleiðis auka aðgengi almennings. Auðvitað er það ríkisstjórnarinnar og þingsins að meta hvað er gert með þær hugmyndir. En út af þessari fordæmalausu og fáheyrðu stöðu held ég að það væri mjög sniðugt að við opnuðum þetta meira. Þegar svona bjátar á er engin stjórn eða stjórnarandstaða, ekkert hægri eða vinstri. Þá getum við unnið öll saman og ég held að það væri afskaplega mikilvægt ef við næðum að fá þjóðina (Forseti hringir.) með í þá hugmyndavinnu og sömuleiðis myndi það hugsanlega skapa meiri sátt þegar kemur að þeim aðgerðum (Forseti hringir.) sem loks verður ráðist í.