150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ríkið er aðaleigandi tveggja kerfislega mikilvægra banka. Í Landsbankanum eru hluthafarnir reyndar fleiri en íslenska ríkið en það er öðruvísi hjá Íslandsbanka. Engu að síður eru þetta sjálfstæðir lögaðilar og lúta regluverki og gilda samkeppnisreglur um það hvernig þeir ganga fram á markaði. Þeir geta ekki hagað sér eins og um ríkissjóð væri að ræða, en ég held að ég skilji alveg hvað hv. þingmaður er að fara.

Varðandi barnabæturnar held ég að segja megi að grunnhugsunin sé sú að það sé eðlilegt að lægri fjárhæð komi til þeirra sem eru fyrir ofan þessi tekjumörk, það myndi endurspegla hæsta skattþrepið. Það er rétt u.þ.b. 600 milljóna viðbótarkostnaður af því að börn þeirra sem eru fyrir ofan þetta viðmiðunarmark séu tekin með. Ætli það sé ekki óhætt að segja að grunnhugsunin (Forseti hringir.) sé sú að þetta eru fjármunir sem vonast er til að nýtist börnunum, ekki foreldrunum.