150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna. Það gefst ekki mikill tími hér, með eina mínútu til ráðstöfunar, til að fara djúpt í hlutina, en það er eitt atriði sem mig langar til að nefna og það er það sem í framsögu hæstv. ráðherra var kallað fimmta atriðið. Það snýr að 50% ríkisábyrgð á útlánum, allt að 70 milljörðum, með helmingsábyrgð, 35 milljarða ábyrgð ríkisins. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherrann: Í kynningunni í Hörpu frá því á laugardaginn var þetta atriði tilgreint sem 81 milljarður. Er eitthvað annað þarna inni en tvisvar sinnum 35, þ.e. 70 milljarðar, sem skýrir þetta?

Hins vegar hef ég áhyggjur af því að aðgerðin verði svolítið ómarkviss vegna þess að það er auðvitað nýbúið að losa um töluvert fé til nýrra útlána innan bankanna með breytingu Seðlabankans m.a. á bindiskyldu og sveiflujöfnunarreglum. Hefur (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að tapsáhætta bankanna, sem er 50% innan þessa ramma, muni virka verulega letjandi á það að þessi lausn verði nýtt yfir höfuð?