150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi 81 milljarðinn, þar er í raun verið að taka með áhrifin af því á útlánagetu bankanna að lækkun bankaskattsins er flýtt. Það eykur útlánagetu bankanna og getur komið til viðbótar við það svigrúm sem ríkisábyrgðin veitir. Ég held að það sé einfaldlega þannig að bankarnir verða í fyrsta lagi að standa með sínum fyrirtækjum. Það segir í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé hugsað þannig að það reyni fyrst á þessa lánalínu eftir að aðalviðskiptabankar fyrirtækjanna hafa veitt þeim eðlilega fyrirgreiðslu miðað við stöðu máls. En hvað þarf til að koma þeim yfir þröskuldinn? Það er ekki gott að meta. Við verðum einfaldlega, og sérstaklega þegar við eigum nú tvo ríkisbanka, að reyna að virkja og nýta þennan risaefnahagsreikning sem bankarnir (Forseti hringir.) hafa til að taka þátt í því að koma okkur upp úr þessari holu. Ríkisábyrgð upp á helming á að skila miklu í því tilliti.