150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar að lykilatriðið er auðvitað að ýta undir það að bankarnir nýti sér það svigrúm sem þeir hafa. En ég hef áhyggjur af því að þessi lausn komi í raun ekki til eiginlegrar skoðunar fyrr en eftir að tiltölulega tímafrekt ferli verður búið að eiga sér stað, hvað það varðar að bankarnir nýti það svigrúm sem þeir hafa eftir tilslakanir Seðlabankans. Það er í raun það sem ég vildi velta upp hér, hvort það væri ástæða til að nýta mögulega þetta svigrúm til að byggja inn einhvern hvata til þess að bankarnir, sem eru auðvitað að miklum hluta í eigu ríkissjóðs í augnablikinu, hreyfi sig hraðar, ef svo má segja, gagnvart útlánasvigrúminu sem þegar hefur verið skapað með tilslökunum Seðlabankans, þ.e. þessum 350 milljörðum.