150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann bendir á að þetta þarf að vera skilvirkt. Menn þurfa að fá skjót svör. Það má ekki vera of umfangsmikið og þunglamalegt kerfi að baki aðgengi að þessum lánum. Við munum í frágangi samnings við Seðlabankann reyna að búa þannig um hnútana að það liggi alveg skýrt fyrir í hvaða tilvikum fyrirtæki ættu að eiga rétt á lánum af þessum toga. Það held ég að sé í raun og veru besta leiðin, að leikreglurnar séu skýrar þannig að ekki þurfi hvort tveggja til langt samtal milli fyrirtækis og fjármálastofnunar og síðan aftur á milli fjármálastofnunar og Seðlabankans. Það getur verið spurning upp á líf og dauða fyrir sum fyrirtæki að þurfa ekki að bíða eftir þessu, að slíkt þunglamalegt ferli sé ekki til staðar. En ég tek fram að við erum hér að fara sömu leið og mörg önnur þjóðríki eru að gera,(Forseti hringir.) m.a. Norðurlöndin, og við hljótum að geta fundið útfærslu á þessu sem virkar.