150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fórum í þessa vinnu þannig að við báðum stjórnkerfið allt, öll ráðuneyti, að tína til öll þau verkefni sem viðkomandi ráðuneyti töldu að hægt væri að ráðast í strax á þessu ári. Úr varð töluverður verkefnalisti sem var unnið áfram með og þetta var niðurstaðan eftir töluvert mikla yfirlegu, að það væri raunhæft að koma allt að 15 milljörðum út strax á þessu ári af þessum hugmyndum öllum. Til viðbótar gætu komið verkefni, eins og ég hef verið að nefna hér í dag, í gegnum opinberu hlutafélögin. Við höfum kannski ekki endilega séð allt sem máli getur skipt þar enn þá. Þar á ofan gætu sveitarfélögin farið í sérstakt átak. Til viðbótar við allt þetta gætum við klárað frumvarpið sem vísað var til (Forseti hringir.) um fjárfestingar með einkaaðilum og bætt því ofan á. Þegar allt þetta er saman tekið þá erum við að tala um gríðarlega stórt fjárfestingarátak í heildina.