150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í öllum aðalatriðum að lýsa mig sammála hv. þingmanni um innviðina og raforkukerfið. Varðandi hjúkrunarheimilin höfum við verið að bæta við fjármunum og höfum tekið frá marga milljarða, allt frá því að við settum stjórnarsáttmálann saman, til þess að hraða uppbyggingu þeirra. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, fyrst við förum út í umræðu um hjúkrunarheimilin, að taka þurfi það fyrirkomulag allt upp með rótum. Mér finnst við vera komin út í ógöngur varðandi það hvernig það kerfi virkar. Það að við séum að ræða það hér hversu mikla fjármuni við ætlum að setja í steypu til að byggja einhverjar staðlaðar íbúðartegundir hjúkrunarheimila finnst mér sýna að við erum ekki að ganga í takt við tímann. Ég myndi vilja sjá fara sem fyrst af stað vinnu við að endurhugsa alla fjármögnun ríkisins á hjúkrunarheimilum þannig að við værum fyrst og fremst að hugsa til þess að fjármagn fylgdi heimilisfólki (Forseti hringir.) og við myndum fara í stóraukið samstarf við þriðja geirann, sjálfseignarstofnanir sem eru góðar í að reka þessi heimili til framtíðar.