150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við fáumst nú við fjáraukalög í mars sem segir sitt um ástandið sem við stöndum frammi fyrir. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi er að finna nokkrar aðgerðir til að bregðast við afleiðingum Covid-faraldursins á Íslandi. Til að byrja með er lagt til að auka útgjöld um 21 milljarð sem skiptist þannig að ferðaþjónustan fær 3 milljarða, barnabætur eru hækkaðar um rétt rúma 3 milljarða auk sértækra fjárráðstafana upp á 15 milljarða. Að auki er lögð til heimild um að taka allt að 140 milljarða kr. lán til að ráðstafa í samræmi við ákvæði þessara fjáraukalaga. 140 milljarðar eru sjö sinnum hærri upphæð en sá 21 milljarður sem ég nefndi, en útskýringin á því virðist vera að gefnar eru auknar heimildir í 4. gr. frumvarpsins um að auka hlutafé í opinberum félögum, veita framlög í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu og að lokum gera samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Af þessu leiðir að 119 milljarðar renna óskiptir til þessara þriggja opnu heimildarákvæða. Það tryggir vissulega ákveðinn sveigjanleika í erfiðum og breytilegum aðstæðum en á sama tíma framselur Alþingi viðamikið fjárveitingavald til ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin verður því að fara varlega og freistast ekki til að misfara með það vald. Píratar munu sinna virku eftirliti með því. Ef einhverjum er treystandi til að sinna virku eftirliti þegar kemur að vinnu fjárlaganefndar með fjárheimildir Alþingis er það hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í fjárlaganefnd.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru kynntar sem mestu aðgerðir Íslandssögunnar á sama tíma og ýjað er að því að meiri aðgerða sé líklega þörf. Það að Alþingi láti ríkisstjórnina fá fjárheimildir upp á 119 milljarða í aðgerðir eins og tímabundið fjárfestingarátak og viðbótarlán til fyrirtækja býður upp á margs konar misnotkun þar sem lítil eða engin takmörk eru bundin við þær fjárheimildir. Því væri ráð að setja svipuð skilyrði um þessar fjárheimildir og voru sett vegna lánaheimildar ríkisins til Íslandspósts, að ríkisstjórnin þurfi að gera þinginu grein fyrir útgjaldaákvörðunum sem byggja á þeim fjárheimildum sem eru veittar í þessum lögum. Þetta getur hv. fjárlaganefnd gert. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í nefndinni, kallar eftir því og leggur til að sett verði sérstök skilyrði um hvernig megi haga þessu með tilliti til þeirra aðstæðna sem við glímum við.

Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um sérstaka 15 milljarða fjárfestingarátakið og hvernig fjármunir í því átaki skiptist. Þar fara 6 milljarðar í samgöngumannvirki, 2,3 í önnur innviðaverkefni, 2 í viðhald fasteigna, rúmlega 1,7 í rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar, rúmlega 1,3 í Stafrænt Ísland og önnur upplýsingatækniverkefni, rúmlega 1 í nýbyggingar og meiri háttar endurbótaverkefni og að lokum 500 milljónir í orkuskipti og grænar lausnir. Við sjáum að meiri hluta fjármuna í þessu sérstaka átaki á að ráðstafa í vegagerð, nýbyggingar og viðhald á húsum, sem sagt steypu og malbik. Ég þarf að upplýsa hér að ég hef hagsmuna að gæta þegar meiri peningar eru settir í malbik sem starfsmaður á plani í malbiki í 23 sumur. Þess á milli hef ég ferðast, farið í háskóla og sinnt þingstörfum. Það er ýmislegt sem maður hefur haft fyrir stafni. Ég mun ekki samþykkja veggjöld nema að það sé samstaða landsmanna um slíkt, ég mun að sjálfsögðu láta þjóðarviljann ráða. Samstaða er aldrei mikilvægari en nú og ekki má nota faraldurinn til að fara í aðgerðir sem eru mjög umdeildar og samstaða er ekki um. Fólk mun þá upplifa að verið sé að nota neyðina og hunsa nauðsynlegt ákall um samstöðu. Slíkt væri óábyrgt. Ef menn ætla að fara þá leið verða þeir að ganga úr skugga um að almenn sátt sé í samfélaginu um þá útfærslu. Annað væri óábyrgt.

Það er jákvætt að við séum að auka fjárfestingu í stafrænum lausnum, skapandi greinum og nýsköpun. Sömuleiðis er framlag til orkuskipta og grænna lausna fagnaðarefni, en fjárfesting í öllu þessu samanlögðu er þó ekki nema helmingur af þeim fjármunum sem ætlaðir eru í vegaframkvæmdir. Konur eru ólíklegri til að vinna í byggingariðnaði og í vegagerð. Því væri óskandi að sjá meiri kraft settan í fjárfestingar sem virka atvinnuskapandi fyrir konur. Ætti fjárlaganefnd að grípa það sjónarmið á lofti og skoða hvað hægt er að gera í þeim efnum. Frekari aðgerðir ríkisstjórnar í framhaldinu ættu líka að taka mið af því og fram kemur að í undirbúningi sé enn stærra fjárfestingarátak á árunum 2021–2023 sem er óskandi að taki mið af því.

Hér er verið að gefa ríkinu heimild til að heimila gerð samnings við Íslandsstofu um kynningar- og markaðsátak erlendis á árunum 2020–2021 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins á íslenska ferðaþjónustu. Það er sjálfsagt að veita þessa heimild. Þegar heimsfaraldurinn verður yfirstaðinn getur þetta gagnast vel við að ná okkur upp. Það er alls óvíst hvort eða þá hvenær ferðaþjónustan á möguleika á að ná sér á strik aftur. Hún mun á endanum gera það, en hvenær? Það er stóra spurningin. Við vitum ekki hvenær aðgerðum vegna Covid-19 verður aflétt og þess vegna er skynsamlegt að styðja strax við innviði og störf sem við vitum að eiga möguleika á að fara í sókn í dag, á tímum faraldurs. Við höfum mörg tækifæri til að styðja við skapandi greinar, sprota og frumkvöðla sem geta skapað nútímalegar hátæknivörur sem afla tekna, óháð því hvort samkomubann er í gildi eða ekki. Þar má nefna hugbúnað, tónlist, bíómyndir, bækur, tölvuleiki og borðspil. Aðeins þau störf sem hægt er að vinna að mestu yfir internetið, selja og dreifa þrátt fyrir félagslega fjarlægð og samkomubann munu dafna á tímum heimsfaraldurs. Efnahagsaðgerðir á kostnað almennings verða að taka tillit til þess.

Í rauninni er ekki margt annað sem þarf að segja um frumvarpið miðað við þau skilaboð sem fylgdu kynningu þess um að þessar ráðstafanir væru fyrstu skref sem þyrfti að taka.