150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og ég nefndi fyrr í umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs, kórónuveirunnar, fögnum við í Miðflokknum almennt aðgerðum sem miða að því að bæta stöðu fólks og fyrirtækja í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum komin í. Mikilvægt er að bregðast hratt við og að við göngum samhent til verka í því að lágmarka það efnahagslega tjón sem því miður blasir við okkur. Staðan er alvarleg. Þess vegna þurfa úrræði sem þessi að ganga vel fyrir sig og mæta þeim miklu erfiðleikum sem fyrirtæki mörg hver koma til með að horfa fram á og einstaklingar sem koma til með að missa störf sín vegna þessa.

Allir hafa skilning á nauðsyn þessa frumvarps en engu að síður er nauðsynlegt að horfa á það með gagnrýnum augum, ekki síst vegna þess að það felur í sér heilmikil fjárútlát fyrir ríkissjóð og heimild til lántöku upp á 140 milljarða kr.

Þegar frumvarp sem þetta er lagt fram, frumvarp sem felur í sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð og hefur verið unnið í flýti, er nauðsynlegt að vanda til verka og forðast öll mistök og allt flækjustig þegar kemur að framkvæmd málsins þannig að við rennum ekki út á tíma í þessum mikilvægu aðgerðum. Það er ekki síður mikilvægt að frumvarpið gagnist þeim best sem þurfa mest á þessum aðgerðum að halda og sem fyrr er nauðsynlegt að gæta ráðdeildarsemi með opinbert fé eins og kveðið er á um í lögum.

Í fyrsta lagi vil ég segja að þær tillögur sem birtast í frumvarpinu eru að mínu viti of flóknar og nauðsynlegt að einfalda þær. Það er hætta í svokölluðum sérstökum ákvörðunum sem er aldrei gott þegar vandinn er svo víðtækur sem raun ber vitni. Það þarf að hlúa að fyrirtækjunum og heimilunum í landinu og við í Miðflokknum tökum heils hugar undir það. Við erum með sérstakar tillögur í þeim efnum sem ég rakti fyrr í morgun.

Frumvarpið felur m.a. í sér efnislega að almenningur, þ.e. skattgreiðendur, mun lána fyrirtækjum í vanda peninga. Hins vegar liggur ekki nægilega ljóst fyrir með hvaða skilyrðum og á hvaða kjörum almenningur mun lána féð. Það verður að vera tryggt að ríkissjóður og skattgreiðendur séu ekki að lána eða bjarga fyrirtækjum þar sem eigendur eða stjórnendur hafa greitt háar arðgreiðslur á síðustu árum, að ríkissjóður láni ekki fyrirtækjum sem hafa verið að kaupa eigin bréf eða veita stjórnendum háa bónusa og kauprétti. Ríkissjóður á að aðstoða og bjarga einstaklingum og heimilum sem raunverulega þurfa á því að halda en ekki fyrirtækjum sem þurfa ekki á því að halda. Hæstv. fjármálaráðherra lagði áherslu á það fyrr í dag að fyrirtæki sem þyrftu ekki á þessari fyrirgreiðslu að halda myndu ekki leita eftir henni. Ég tek heils hugar undir að það á að vera markmiðið og það þarf að vera tryggt að þau fyrirtæki sem þurfa á þessu að halda njóti fyrirgreiðslunnar en síður þau sem þurfa ekki á því að halda.

Það er rétt að nefna í þessu samhengi að Alþýðusamband Íslands hefur ályktað á þann veg að ef ákveðið verður að veita fyrirtækjum ríkisábyrgð á skuldum sínum eigi ríkisstjórnin að veita heimilum sem lenda í greiðsluerfiðleikum ríkisábyrgð með sama hætti, hvort sem er vegna húsnæðislána eða annarra íþyngjandi skuldbindinga.

Hafa þarf í huga að hluthafar í þeim fyrirtækjum sem fá stuðning verða með einhverjum hætti að borga þann stuðning til baka. Þá á ég ekki við að bankinn fái lánið til baka í svokallaðri lánalínu ríkissjóðs. Hluthafar mega ekki komast upp með að vera án svokallaðra áhættuvarna og fá svo ríkisstuðning í formi lánveitingar frá banka með ríkisábyrgð. Þá er í raun verið að verðlauna áhættutöku og það er óásættanlegt að forstjórar og framkvæmdastjórar haldi síðan áfram að fá há laun, kauprétti o.s.frv. í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum í og ríkissjóður er að koma inn í.

Nauðsynlegt er að skýra með hvaða hætti ríkisábyrgð á nýjum lánum til fyrirtækja verður háttað. Verður gert ráð fyrir því að veðið skiptist jafnt á milli bankans og ríkisins ef um lán gegn veði er að ræða eða heldur bankinn því alfarið fyrir sig? Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í andsvari að þessu yrði skipt og nauðsynlegt að það komi fram. Einnig nefndi hæstv. ráðherra að ríkisábyrgðin yrði til 18 mánaða. Það er væntanlega í endurskoðun eftir því sem okkur berast meiri upplýsingar og við sjáum hvernig aðstæður þróast í efnahagslífi okkar og hversu hratt við náum okkur aftur á strik þegar veiran verður komin í burtu. Vonandi hverfur hún sem fyrst.

Í reynd er þetta í annað skipti á stuttum tíma sem stærsta atvinnugrein landsins hrynur. Nú er það ferðaþjónustan, en bankakerfið hrundi 2008 eins og við þekkjum öll. Segja má að það sem blasi við sé umfangsmeira en bankahrunið og muni hafa meiri áhrif í öllu hagkerfi landsins. Við þekkjum öll hvað gerðist í bankahruninu með krónuna og verðtrygginguna. Við getum ekki útilokað að slíkt endurtaki sig en vonandi kemur ekki til þess. Stjórnvöld þurfa hins vegar að vera viðbúin og taka þá vísitöluna úr sambandi ef veður skipast snögglega með þeim hætti.

Þegar frumvarpið var kynnt á fundi fjárlaganefndar kom sérstaklega fram að þessi mikilvægu atriði hefðu ekki verið ofarlega á borðinu í útfærslu ríkisstjórnarinnar, þ.e. hratt gengisfall krónunnar, útstreymi gjaldeyris og að verðbólgan tæki stökk. Hins vegar kom fram að ekki væri útilokað að sú þróun gæti farið af stað. Auk þess kom fram að ekki hefði verið rætt um að grípa inn í verðtrygginguna. Ég hef áhyggjur af því, herra forseti, að þessir mjög svo mikilvægu þættir hafi ekki verið ofarlega á borðinu eins og sagt var. Það er beinlínis lífsnauðsynlegt að hafa aðgerðaáætlun sem lýtur að þeim aðstæðum sem við höfum áður lent í með alvarlegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu.

Næst vil ég, herra forseti, víkja aðeins að hinum svokölluðu brúarlánum og hlutalaunum með aðkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég tel þetta of seint fram komið vegna þess að það er augljóst að þetta tekur of langan tíma og er of flókið í framkvæmd. Það þarf að einfalda ferlið. Það þarf að ræða innan nefndarinnar hvernig hægt sé að gera það. Við þurfum að hafa í huga lítil og meðalstór fyrirtæki vegna þess að þau eru ekki síður mikilvæg en önnur fyrirtæki. Aðgerðirnar þurfa að vera almennar og aðgengilegar. Til dæmis ætti að skoða útfærslu sem ég vil kalla nýsköpunarlaun, þ.e. að ríkið greiði laun þeirra sem eru heima, greiði starfsfólki og fyrirtækjum laun í þeim efnum, þannig að þeir sem eru heima geti nýtt tímann til að þróa hugmyndir og nýsköpun. Það er okkur mjög mikilvægt í þeim aðstæðum sem við erum í núna. Það er mikilvægt að við reynum að nýta þá starfskrafta sem þurfa að vera heima vegna ástandsins til að koma með nýjar hugmyndir og að sem flestir séu virkir. Það er öllum fyrir bestu. Gefa ætti fyrirtækjum tækifæri til að fá svokölluð nýsköpunarlán frá ríkinu til t.d. þriggja ára til að nýta tímann í að þróa hugmyndir.

Skilmálar lánafyrirgreiðslunnar eru í raun sérkafli sem verður að fara mjög vandlega yfir, bæði hvað varðar hagsmunaárekstra og að hún verði ekki of flókin, eins og ég rakti sérstaklega. Þarna verður að ríkja algjört gagnsæi.

Að mínum dómi er verið að gefa bönkunum verulega eftir, bönkum sem hafa verið með háar arðgreiðslur og hafa verið að kaupa upp eigin bréf. Það verður að gera þá kröfu að hluthafar skili því til baka, þ.e. með eigin fé annars staðar, til að mæta þessum áföllum. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að menn hugi að kaupréttaráætlunum sem t.d. einkabankinn Arion banki hefur samþykkt. Þetta þarf allt að vera til skoðunar þegar lánafyrirgreiðslan og lækkun bankaskattsins verður að veruleika.

Í frumvarpinu er fjallað um aðkomu Seðlabanka Íslands sem ábyrgðaraðila að þessum lánum og lánum banka til fyrirtækja. Á sama tíma hefur Seðlabankinn haft eftirlit með fjármálafyrirtækjum sem var áður í höndum Fjármálaeftirlitsins. Hér er ljóst að um ákveðinn hagsmunaárekstur er að ræða. Þetta er eitt af klassískum dæmum sem voru nefnd gegn sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, þ.e. að Seðlabankinn er ábyrgðaraðili, lánveitandi og eftirlitsaðili, samanber samninga milli Seðlabankans og bankanna um slíkar ábyrgðir. Hagsmunaárekstrar af þessu tagi eru óæskilegir.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um ýmsar fjárheimildir en hins vegar er nauðsynlegt að útfæra nánar með hvaða hætti þær eru og hvaða verkefni er um að ræða. Vissulega er yfirlit í frumvarpinu um þetta á bls. 13 en það er bara almennt. Hæstv. ráðherra gat þess að útfærslan yrði í formi þingsályktunartillögu og hefði verið æskilegt að hægt hefði verið að upplýsa um verkefnin í þessari umræðu. Hið sama á við um samning við Íslandsstofu og samning við Seðlabankann. Þeir liggja ekki fyrir. Þarna er verið að færa framkvæmdarvaldinu veruleg völd til að útfæra þessa hluti nánar og þar er mikilvægt að huga að eftirliti og gagnsæi. Það er alltaf hætta á hagsmunaárekstrum.

Líklega er það sem er lagt upp með í frumvarpinu of lítið og úrræðin koma of seint fyrir marga. Það er stutt í næstu mánaðamót. Tillögurnar taka ekki til þess hvernig eigi að mæta þeim fyrirtækjum sem sjá fram á 90% samdrátt nánast á einni nóttu eða kannski tveimur vikum. Þau fyrirtæki hafa lítinn aðgang að fjármagni og lausafé og hætt er við að næstu mánaðamót verði viðkomandi fyrirtækjum erfið. Það er hætta á því að vandinn margfaldist í kerfinu á stuttum tíma og við þurfum að vera viðbúin því og grípa inn í.

Það er rétt að nefna í þessu samhengi bæði sóttvarnafrumvarpið og hlutalaunin. Þar eru mjög þröng skilyrði. Það þarf að tækla þann vanda sem er uppi hjá fyrirtækjum sem hafa engar tekjur og hafa misst þær nánast á einni nóttu eins og ég nefndi. Sá vandi getur líka verið ekki bara bundinn við viðkomandi fyrirtæki, hann getur bitnað á leigusala vegna þess að leigan er ekki greidd, hann getur bitnað á banka vegna þess að lán eru ekki greidd, hann getur bitnað á birgjum vegna þess að vörur eru ekki keyptar o.s.frv.

Síðan er nauðsynlegt að skilyrði varðandi lánveitingar og ábyrgðir Seðlabankans séu gagnsæ og skýr, eins og ég sagði áðan. Við stöndum frammi fyrir bráðavanda, það er ljóst, og þess vegna er brýnt að bregðast hratt við og að fyrirmæli til ríkisbankanna um aðkomu þeirra séu skýr og að allt ferlið verði sem einfaldast. Mögulega er þetta fyrsta skrefið sem á eftir að útfæra nánar og miða við hvernig aðstæður þróast.

Ég læt þetta verða síðustu orð mín að þessu sinni, herra forseti, og mun leggja mitt fram fyrir hönd Miðflokksins í fjárlaganefnd þegar frumvarpið verður rætt. Ég vænti þess að nefndin standi öll saman í því mikilvæga verkefni sem fram undan er.