150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[15:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannavarnir. Með frumvarpinu er lagt til nýtt ákvæði í kafla laganna um borgaralega skyldu á hættustundu sem tryggir svigrúm opinberra aðila til að færa starfsmenn milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Slík verkefni lúta m.a. að því að halda megi úti nauðsynlegri almannaþjónustu og verði þá hægt að fara fram á breytingu á starfsskyldum og jafnvel vinnustöðum viðkomandi starfsmanna eftir þörfum en starfsmenn munu halda óbreyttum launakjörum við þær aðstæður.

Með opinberum aðilum samkvæmt frumvarpi þessu er átt við ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu. Hættustund í skilningi þessa ákvæðis er þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi sem er hæsta almannavarnastig samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga eða hefur lýst því yfir að neyðarstig sé yfirvofandi. Þess má geta að aldrei hefur neyðarstigi almannavarna verið lýst yfir fyrr en nú í baráttunni við farsóttina Covid-19.

Undanfarið hafa ýmsir opinberir aðilar markvisst unnið að uppfærslu á viðbragðsáætlunum, m.a. vegna snjóflóðahættu, eldgosahættu og farsóttarinnar Covid-19. Í mörgum viðbragðsáætlunum er nú tekið fram að heimilt sé að færa fólk á milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Við vinnu við allar þær viðbragðsáætlanir hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila til að færa starfsmenn til í starfi eftir þörfum. Slík heimild þarf að vera til staðar óháð efni viðbragðsáætlana þar sem oft þarf að taka ákvarðanir hratt og örugglega á neyðarstigi almannavarna.

Samkvæmt 19. gr. laga um almannavarnir er borgaraleg skylda allra á aldrinum 18–65 ára á hættustundu að gegna, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum lögreglustjóra, að fegnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra. Um þessa heimild hef ég uppfært reglur sem tóku gildi þann 18. mars, en eðlilegt er að fyrir hendi sé vægara úrræði eða heimild til að mannauður opinberra aðila sé virkjaður og taki laun fyrir. Opinberir aðilar geti þannig nýtt mannauð sinn á óvenjulegum tímum sem þessum í þau verkefni sem eru mikilvægust hverju sinni. Með samþykkt frumvarpsins munu starfsskyldur starfsmanna ná til þess að sinna þeim borgaralegu skyldum á hættustundu sem þeim er falið á grundvelli þessarar heimildar.

Í dæmaskyni og til að átta sig aðeins á frumvarpinu geta aðgerðir sem miða að því að hindra m.a. útbreiðslu farsótta falist í því að færa fólk til í störfum með ýmsum hætti. Hið sama á við um viðbrögð og aðgerðir til að viðhalda almannaþjónustu á hættustundu vegna annarrar vár. Mögulega þarf að færa þjónustu af starfsstöð þannig að t.d. dagþjónustu fatlaðra og/eða aldraðra verði sinnt í heimaþjónustu, kennslu hjá menntastofnunum verði sinnt í fjarkennslu eða gerðar kröfur um að starfsmenn vinni heima. Þá getur þurft að fela starfsmönnum önnur störf en þeir gegna alla jafna, svo sem að gegna auknu hlutverki varðandi þrif og sóttvarnir og fara úr sérhæfðum sérfræðistörfum í þjónustu- og afgreiðslustörf. Í ýtrustu tilfellum getur einnig þurft að færa fólk á milli vinnustaða ef sú staða kemur upp að fjöldi starfsmanna í einni starfsstöð eða á einum vinnustað er í sóttkví og því þurfi að leita aðstoðar annarra opinberra aðila til að sinna nauðsynlegri almannaþjónustu.

Við sjáum strax þess merki að sveitarfélög séu að glíma við gríðarlegan vanda vegna fjölda smitaðra eða í sóttkví. Það mun hafa gríðarleg áhrif á ákveðin störf og nauðsynlega almannaþjónustu. Auðvitað er hægt að nefna fleiri dæmi um sjúkraflutninga, snjóflóðaeftirlit og þjónustu við aldraða sem getur komið upp á þessum tíma en verður ávallt að sinna til að tryggja nauðsynlegustu almannaþjónustu. Þessi heimild getur því falið í sér flutning milli starfa innan sveitarfélags, milli sveitarfélaga, milli sveitarfélags og ríkis, milli ríkisstofnana o.s.frv. samkvæmt samkomulagi þeirra opinberu aðila sem um ræðir hverju sinni að teknu tilliti til meðalhófs. Við þessar aðstæður verður þó ávallt að líta til aðstæðna starfsmanna hverju sinni, svo sem ef starfsmaður eða annar einstaklingur sem hann ber ábyrgð á glímir við undirliggjandi sjúkdóm eða aðstæður sem að öðru leyti eru slíkar að breytt starfsemi myndi stefna í hættu öryggi eða heilbrigði hans eða þess sem hann ber ábyrgð á. Við slíkar aðstæður skal starfsmaðurinn vera undanþeginn skyldu þessa ákvæðis.

Með samþykkt frumvarpsins verður opinberum aðilum tryggð heimild til að bregðast hratt og örugglega við á neyðarstigi almannavarna og geta þeir ráðstafað starfsmönnum sínum í verkefni er njóta forgangs og sem verður að sinna á þessum viðkvæmu tímum. Hún mun hafa mikilvæg og jákvæð áhrif til að sporna við hættu og veita þá nauðsynlegu þjónustu sem samfélagið þarfnast hverju sinni.

Við undirbúning frumvarpsins var unnið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samráð haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið og samband haft við helstu forsvarsmenn samtaka starfsmanna opinberra aðila.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Á neyðarstigi almannavarna vegna farsóttarinnar Covid-19 er sú lagabreyting sem lögð er til með frumvarpinu brýn til að koma sérstaklega til móts við minni sveitarfélög sem strax eru farin að finna fyrir því að stór hluti starfsmanna er farinn í sóttkví sem getur haft áhrif á ýmsa almannaþjónustu sem nauðsynlegt er að halda úti þrátt fyrir stöðuna neyðarstig almannavarna.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.