150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[15:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu á þessu frumvarpi sem kemur samkvæmt greinargerðinni ekki bara til vegna þess faraldurs sem nú geisar heldur líka undanfarandi atburða í vetur, þ.e. snjóflóðahættunnar sem við munum eftir og eldgosahættu og veðurhamfara sem urðu í vetur. Ástæðurnar fyrir framlagningu frumvarpsins eru margs konar, ekki einungis þessi faraldur.

Ég ætla að spyrja ráðherra örlítið út í ýmis atriði. Í fyrsta lagi langar mig til að fá hennar útskýringar betur á því hvað það sem kallað er hættustund þýðir í raun og veru samkvæmt lögunum. Ég átta mig á að það kemur fram í greinargerð. Það kemur fram í frumvarpinu og líka í lögunum en ég er að velta fyrir mér hvort sú skýring sem kemur fram í greinargerðinni sé næg, hvort ekki hafi þótt ástæða til að setja beint í frumvarpið sjálft hvenær hættustund væri runnin upp. Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að yfirleitt hefur fólk sem sinnir almannavörnum nokkuð á tilfinningunni hvenær aðgerða er þörf. Ég átta mig á því en spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi verið tilefni til að setja það einnig í lögin vegna þess að skýringin á þessu er samkvæmt greinargerðinni ekki alveg auðskiljanleg að mínu mati.

Í öðru lagi spyr ég hvaða samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og sérstaklega launþegasamtökin við gerð þessa frumvarps.