150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[15:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er alveg rétt eins og hv. þingmaður kom inn á að margt þarf uppfærslu en kannski er ekki jafn mikil þörf á því og þeirri lagabreytingu sem ég kem með núna sem þarf að samþykkja fljótt og vel til að létta sérstaklega undir með þeim sveitarfélögum sem strax eru farin að finna fyrir farsóttinni og þar sem mikilvæg störf eru í húfi og mikilvæg almannaþjónusta. Ég tek þessa umræðu með mér í þá vinnu sem er í gangi, m.a. við nýja almannavarnastefnu þar sem fyrri stefna rann út árið 2017. Við erum að leggja lokahönd á nýja almannavarnastefnu og munum auðvitað taka það sem við höfum lært af vinnunni á síðustu vikum og mánuðum inn í hana. Einnig virkjaði ég í fyrsta sinn rannsóknarnefnd almannavarna til að fara yfir þau almannavarnaviðbrögð sem urðu eftir óveðrið í desember og áhrif af þeim, hvernig viðbrögðin væru og hvað við gætum gert betur. Vonandi kemur eitthvað út úr því sem við getum líka nýtt okkur í þessari vinnu.

Margs konar önnur vinna er í gangi. Það er búið að styrkja almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar var settur inn nýr maður, Víðir Reynisson, sem er orðinn landsþekktur, sem kom inn með settum ríkislögreglustjóra bara um áramót en þekkir þetta vel. Þar er einnig búið að fjölga stöðugildum og endurskipuleggja deildina og ég veit að nýr ríkislögreglustjóri hefur líka mikinn áhuga á að styrkja þessa deild, enda mjög mikilvæg. Við höfum séð það vægast sagt undanfarin misseri hversu mikilvægt þetta samstarf er og að við höfum gott fólk þar í brúnni og skýra stefnu um það hvernig við ætlum að bregðast við almannavarnaástandi eins og þessu og því ástandi sem hefur verið hér undanfarin misseri.