150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að Samfylkingin styður að sjálfsögðu þær framkvæmdir sem búið er að ákveða að ráðast í en við veltum engu að síður fyrir okkur af hverju ekki er sett meira í nýsköpunarmál á þessum tímapunkti. Við sjáum að nýsköpunarkaflinn í frumvarpinu er einungis 2 milljarðar sem er 0,2% af fjárlögum ríkisins. Þetta væri innspýtingin sem myndi skipta okkur gríðarlega miklu máli á þessum tímapunkti. Þetta er innspýting sem krefst í rauninni bara pennastriks af hálfu þingsins. Við getum ákveðið að tvöfalda eða þrefalda, fjórfalda Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og Innviðasjóð með engum fyrirvara.

Sömuleiðis vil ég spyrja hæstv. ráðherra af hverju ekki hafi verið settur aðeins meiri kraftur í hinar verklegu fjárfestingar. Við sjáum að sveitarfélögin, hvort sem litið er til Suðurnesja eða fyrir norðan, vestan eða á höfuðborgarsvæðinu, hafa komið upplýsingum til ráðuneytisins um að fleiri verkefni séu tilbúin og væri hægt að ráðast í núna. Ég veit að eitthvað kemur síðar meir en núna er tíminn til að spýta í (Forseti hringir.) og mér finnst 15 milljarðar afskaplega lítið á þessum tímapunkti, herra forseti.