150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:44]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í bankahruninu var ríkissjóður rekinn fyrsta ár eftir hrun með 216 milljarða kr. halla sem uppreiknað er 300 milljarðar. Sá halli hjálpaði okkur að verja velferðina og störf. 15 milljarðar eru lítið í þessu samhengi, þetta er 1,5% af ríkisfjármálunum. Við getum gert meira og við getum gert það núna. Sveitarfélögin eru tilbúin með verkefni sem hægt væri að ráðast í núna þegar kemur að samkeppnissjóðunum. Tækniþróunarsjóður er ekki stór biti, þetta eru rúmir 2 milljarðar. Við fáum upplýsingar í fjárlaganefnd að einungis einn þriðji af þeim verkefnum sem skora hæst fá úthlutun úr þeim sjóði. Það er afskaplega auðveld leið fyrir okkur til að bregðast við þessu ástandi með því að setja ríflega í þessa sjóði.

Nýsköpun er lykilatriði í svona ástandi. Það eru nýsköpun og verklegar opinberar fjárfestingar sem munu koma okkur upp úr þessu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hér þverpólitískan stuðning, ég fullyrði það, við að setja meiri fjármuni í verklegar fjárfestingar sem hægt er að ráðast í núna og ekki síður í nýsköpun. Hér eru bandamenn hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og ég hvet hæstv. ráðherra til að nýta sér þann meðbyr sem hann hefur þó hér í þessum sal og meðal þjóðarinnar að setja duglega í. Við þurfum svo sannarlega á því að halda, herra forseti.