150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir þessa þingsályktunartillögu. Það er margt ágætt í henni, margt gott, en hins vegar brenna eðlilega nokkrar spurningar á þingmönnum og mun ég koma betur að þeim í ræðu á eftir. Mig langar fyrst að spyrja hæstv. ráðherra út í þær upphæðir sem lúta að samgöngumálum. Sýna þessar tölur umfang þeirra verkefna sem t.d. Vegagerðin lagði fram? Er þetta upphæðin sem Vegagerðin taldi unnt að fara í framkvæmdir fyrir á þessu ári eða var talan fundin fyrst út og svo reynt að búa til einhver verkefni inn í hana? Mér finnst skipta máli hvernig aðferðafræði er notuð við þetta því að Vegagerðin hefur augljóslega yfirsýn yfir það hvar þörfin er og hvar ekki.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra hvort það sé einhver mótsögn í því að í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að hægt sé að framlengja þessi verkefni fram yfir þær dagsetningar sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu. Þar er skilyrt að verkefni hefjist fyrir 1. september 2020 og ljúki fyrir 1. apríl 2021. Stangast þetta að einhverju leyti á við fjáraukalagafrumvarpið sjálft?