150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki farið í heildstætt mat á því hversu mörg störfin eru. Ég nefndi dæmi um að í hugbúnaðargeiranum gætu orðið til, út af Stafrænu Íslandi, 140–170 ársverk. Það eru fyrst og fremst forritunarstörf sem kæmu inn í rammasamningana og eru allt störf í einkageiranum. Í mannaflsfrekum verkefnum í vegavinnu er uppistaðan í öllum þeim verkum unnin sömuleiðis í einkageiranum. Allt sem úthlutað er úr samkeppnissjóðunum er unnið ýmist í háskólasamfélaginu eða í einkageiranum, sérstaklega allt sem tengist hagnýtum rannsóknum. Svona mætti halda áfram að telja.

Það sem stendur upp úr er að við höfum sérstaklega reynt að forgangsraða verkefnum sem munu tryggja störf og auka arðsemi samfélagsins til lengri tíma. Við getum síðan haldið áfram umræðu um það endalaust í sjálfu sér hversu stórt lán við eigum að taka til þess að fara í framkvæmdir af því að við erum að taka lán til að gera þetta.