150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir því þegar maður er að taka ákvarðanir hver áhrifin af þeim verða. Hér höfum við, með okkar besta fólki í stjórnkerfinu, safnað saman hugmyndum að framkvæmdum sem hægt er að ráðast í á þessu ári. Það er síðan rýnt alveg sérstaklega af hópi embættismanna, einkum hagfræðinga, með hliðsjón af þeim viðmiðum sem ég hef hér verið að nefna. Kostnaðar- og ábatagreining verður hins vegar aldrei einhver hrein raunvísindi. Þetta er að verulegum hluta byggt á hagfræðilegu mati sem aldrei er hægt að segja að veiti manni nákvæmt svar upp á kommustaf. En ég held að ef menn leggja alla hefðbundna mælikvarða á þau verkefni sem hér eru undir, dreifingu þeirra, tegund og eðli, komist þeir að því að þau eru mjög vel til þess fallin að mæta þessum áherslum.