150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hefði áhyggjur af varðandi það að fara í 30–40 milljarða viðbætur á níu mánuðum er einfaldlega að koma þessum peningum í vinnu, að ráða nógu margar vinnuvélar og fá hagstætt verð ef menn ætla að troða peningum ofan í verktakageirann. Við gætum misst stjórn á framboði og eftirspurn. Ég held að það sé ekki vænlegt fyrir okkur að lenda í einhverju kapphlaupi um yfirboð í því hvað við trúum að hægt sé að troða miklum peningum út í fjárfestingar í hagkerfinu.

Miklu nær er að við setjumst yfir það af yfirvegun og spyrjum í rólegheitum: Hvað er raunhæft að koma miklu út og hver eru þau verkefni? Sumar hugmyndir sem hafa flogið fyrir eru einfaldlega enn á hugmyndastigi og alls ekki komnar á hönnunarstig. Þegar menn eru farnir að nefna tugi milljarða í þessari umræðu held ég að menn séu komnir út fyrir næstu áramót og að sú umræða eigi heima í því sem við ætlum að taka fyrir í næstu fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) Umfangið er nefnt hér, óbeina umfangið er verulegt, þ.e. það sem kemur í gegnum sjálfvirku sveiflujöfnunina og við höfum verið að ræða hvort séu 100 eða 200 milljarðar.