150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum sagt að við viljum taka þannig á málum núna að við viljum frekar gera meira en minna. Þegar kemur að fjárfestingunni sem við munum eignast sem samfélag er þeim mun heldur ástæða til að láta taka dálítið hressilega til sín við þessar aðstæður. Við teljum að við séum að gera það þó að alltaf megi deila um það nákvæmlega hvort stoppa hefði átt í 15 eða fara upp í 18 eða 20 milljarða. Það er tilgangslaust að fara mjög djúpt í þá umræðu án þess að hafa eitthvað fyrir framan sig til að ræða um, einhverjar hugmyndir, einhverjar tillögur, einhver ákveðin verkefni, og spyrja hvort raunhæft sé að hrinda þeim í framkvæmd.

Varðandi rannsóknir og þróun hef ég mælt fyrir hverju málinu á eftir öðru til að auka svigrúm fyrirtækja til að draga slík mál frá rekstrarkostnaði sínum gagnvart sköttum og styð ég það heils hugar. Hið sama gildir um sjóðina. Hins vegar er spurning hvenær við erum komin í eðlileg hlutföll úthlutunar. Í þessum verklegu framkvæmdum þarf bara að fara yfir listana. (Forseti hringir.) Ég lít þannig á að það sé verkefni nefndarinnar að skoða listana.