150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:19]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að við þurfum að forgangsraða og einmitt forgangsraða mannaflsfrekum iðnaði vegna þess að það blasir við að atvinnuleysi er að fara að aukast. Þegar eru 10.000 manns atvinnulausir á Íslandi og 30.000 bein störf eru í íslenskri ferðaþjónustu. Hugsið ykkur, 30.000 sem eru að fá högg núna, það er aldeilis. Við sjáum að atvinnuhorfur námsmanna í vor og sumar eru að verða að engu þannig að við þurfum einhvern veginn að mæta svona afmörkuðum hópi þegar kemur að atvinnumálum. Ég tek því undir það að við þurfum að stuðla að mannaflsfrekum verkefnum sem ná til beggja kynja. Það eru svo sem allir sammála um að við þurfum að hafa kynjagleraugun á þegar kemur að þeim verkefnum.

Síðan eru það hin verkefnin sem eru kannski ekki mannaflsfrek en eru arðsöm, það eru auðvitað nýsköpunin og grænar lausnir. Maður vill helst ekki vera neikvæður í ræðustóli á þessum tímapunkti en það eru ákveðin vonbrigði að grænar lausnir og rannsóknir og nýsköpun fái rúma 2 milljarða. Munið að við erum með 1.000 milljarða í fjárlögum fyrir þetta áfall, þannig að hér getum við sett aðeins meira í og sérstaklega með arðsemi í huga, af því að hæstv. ráðherra nefndi það. Það er nýsköpun sem mun koma okkur upp úr þessu, nýsköpun í landbúnaði, sjávarútvegi, orku, í tæknigeiranum. Það er nýsköpun sem unga fólkið mun leita til og eldra fólk sömuleiðis. Það er það sem er lykilorðið, nýsköpun, nýsköpun, nýsköpun.

Svo eru önnur tækifæri eins og með hjúkrunarheimilin. Við erum með minnisblað í fjárlaganefnd um að hægt sé að ráðast í nú þegar 70 ný hjúkrunarrými án þess að byggja eitt einasta nýtt hús. Auðvitað þurfum við að byggja fleiri hjúkrunarrými og það er mannaflsfrekt en það er t.d. arðsamt verkefni að ákveða hér að það verði einfaldlega 70 hjúkrunarrými með því að setja einungis 1 milljarði meira í reksturinn. Þetta léttir síðan á spítalanum sem er núna undir ótrúlega álagi. Við eigum eftir að skoða það aðeins betur í fjárlaganefnd en í fjáraukalögum (Forseti hringir.) er ekki króna sett í heilbrigðismálin á þessum tímapunkti. Ég er að vona að við getum gert það því að það er svo augljóst að kostnaðurinn er að aukast í heilbrigðiskerfinu eins og staðan er í dag.

Aftur ítreka ég samstarfsvilja Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) við að styðja góð mál en við viljum frekari hugmyndir til að mæta þeirri fordæmalausu stöðu sem við erum í, herra forseti.