150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Viðhald og endurbætur fasteigna 2 milljarðar. Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur 700 milljónir. Samgöngumannvirki 6,2 milljarðar. Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál 1,4 milljarðar. Önnur innviðaverkefni 1,6 milljarðar. Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar 1,75 milljarðar. Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni 1,35 milljarðar. Loksins núna í neyðarástandi er hægt að fara að sinna upplýsingatækniverkefnum sem er búið að kalla eftir í mörg ár. Það er einmitt einkenni margra þessara verkefna, sem er eins og ráðherra segir, raunhæft að fara í á þessu ári. Ástæðan fyrir því er að það er búið að vera að kalla eftir þeim verkefnum í mörg ár. Þau eru loksins orðin raunhæf þegar það er komið neyðarástand. Það finnst mér áhugavert. Og þegar sagt er að gera meira heldur en minna er gott að skoða samhengið þar.

Samtals eru þetta 15 milljarðar í fjárfestingarátak sem mætti kalla fyrstu viðbrögð ríkisstjórnar við samdrætti sem margir spá að verði verri efnahagskreppa en hrunið var forðum. Þegar á heildina er litið verður að segja að í þessum pakka sé ýmislegt ágætt að finna en ég er þó nokkuð hugsi yfir forgangsröðuninni. Undirstaðan í átakinu virðist að mjög miklu leyti vera steypa. Steypa, steypa og meiri steypa. Smá malbik líka, en mest steypa í annars konar verkefni. Meira að segja grænu lausnirnar svokölluðu eru mikið til steypulausnir líka og það sem er ekki steypa er að hluta til malbik. Tveir þriðju af þessu fjárfestingarátaki eru steypa og malbik. Ég dreg ekki úr mikilvægi þeirra steypuverkefna sem stungið er upp á en þetta eru allt verkefni sem hafa ekki hlotið náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar fyrr en nú. Allt eru þetta verkefni sem hafa ekki komist í fjárlög eða samgönguáætlun hingað til þótt óskað hafi verið eftir því í þó nokkurn tíma.

Þó að margt gott sé í þessu plaggi eru augljós göt í þessari fjárfestingaráætlun. Sem dæmi má nefna að það vantar mikið upp á innspýtingu í nýsköpun og upplýsingatækni. Í því samhengi vil ég taka undir með Samtökum iðnaðarins sem hafa bent á að áætluð aukaframlög í Tækniþróunarsjóð geti ekki talist nema dropi í hafið. Fram hefur komið að Tækniþróunarsjóður hafi einungis fjármagn til að styrkja 27% þeirra umsókna sem sjóðurinn mat til hæstu einkunnar sem fýsileg verkefni í síðustu umsóknarlotu. Tækniþróunarsjóður er með um 2 milljarða þannig að þarna er 70% viðbót af verkefnum sem eru með hæstu einkunn sem væri bara mjög auðvelt að styðja, augljóslega tilbúin verkefni. Samtök atvinnulífsins leggja til 3 milljarða sem ætti að vera auðveldlega hægt að koma út í þennan sjóð eingöngu, hvað þá til allra hinna sjóðanna eins og Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs, sóknaráætluna landshluta, umhverfissjóða eins og loftslagssjóð og fleiri. Tækifærin liggja beinlínis fyrir framan okkur en ríkisstjórnin velur steypu. Skakka steypu meira að segja því að það er kynjaskekkja og umhverfisskekkja í tillögum ríkissjóðs að mínu mati.

Það er fyrirsjáanleg efnahagslægð fram undan og sitt sýnist hverjum um hversu djúp hún verður en margir búast við verri niðursveiflu en var í efnahagshruninu 2008. Á sama tíma eigum við að vera að glíma við umhverfisvá og sinna skuldbindingum okkar vegna alþjóðasamninga. Það er ekkert sem kemur niður á efnahagshorfum sem slíkum. Þar er tækifæri að finna þannig að það er ekki eitthvað sem við eigum að hunsa. Áætlun ríkisstjórnarinnar lýsir því svo sem að 1,4 milljarðar verði settir í orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál. En mér finnst ríkisstjórnin heldur frjálsleg í túlkun sinni á því hvað teljast vera umhverfismál og grænar lausnir. Af umræddum 1,4 milljörðum á um þriðjungur eða 500 millj. kr. sléttar að fara í orkuskipti fyrir bílaleigur, þungaflutninga á landi og rafvæðingu hafna. Sömu 500 milljónir eiga að nýtast í aukið átak til bindingar kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Það vita allir sem vilja vita að þessi verkefni eru miklu dýrari en 500 milljónir og auðveldlega svo á þessu ári.

Ég geri ekki lítið úr nauðsyn uppbyggingar göngustíga t.d., sem er flokkað sem grænt mál, uppbygging göngustíga innan friðlanda fyrir 315 milljónir. Átroðningurinn á ýmsum stöðum hefur valdið gríðarlegum skemmdum á undanförnum árum. Það er vissulega gott fyrir umhverfið að minnka líkur á áframhaldandi skemmdum með aðgerðum sem þessum. Uppbygging á aðstöðu á vegum þjóðgarða fær 300 milljónir. Það er hægt að flokka það sem umhverfismál en samt tæplega, þetta er frekar samgöngu- og innviðamál. Jökulsárlón fær 50 milljónir í bílastæði, aðkomuveg, heimtaugar ásamt spennivirki, vatnsveitu og ljósleiðaratengingu. Það er líka pínulítið erfitt að skilgreina þessar framkvæmdir sem umhverfismál. Fráveitumál, uppbygging hjá sveitarfélögum fær 200 milljónir. Er þetta ekki innviðamál frekar en umhverfismál? Vissulega eru afleiðingar lélegra fráveitumála slæmar fyrir umhverfið en það er einfaldlega spurning um að fráveitumál uppfylli kröfur. Í tillögunni segir að veruleg þörf sé á uppbyggingu í þessum málaflokki. Það er ekkert nýtt. Það er spurning hversu langt er hægt að fara með túlkun ríkisstjórnarinnar á því hvað teljist í raun og veru vera umhverfismál. Ég skynja a.m.k. ákveðinn grænþvott í þessum reikningi.

Kynjaskekkjan er líka áhyggjuefni. Við eigum að vera með kynjuð fjárlög og þar af leiðandi kynjuð fjáraukalög samkvæmt lögum um opinber fjármál. Nauðsyn þessa skilyrðis endurspeglast vel í fjárfestingarátakinu. Tveir þriðju upphæðarinnar virðast augljóslega fara í verkefni sem skapa aðallega karlastörf og þau virðast augljóslega skapa mestan hagnað fyrir karla. Síðast þegar ég vissi voru u.þ.b. jafn margir karlar og konur í landinu. Eða er þetta kannski karlakreppa sem við erum að fara að detta í? Sjáum við á næstunni bara atvinnuleysi meðal karla? Ef svo er þá getur vel verið að þetta séu mjög kynjuð fjáraukalög, en mér sýnist ekki.

Það vekur einnig athygli mína að ekki er hugað að tveimur augljósum vandamálum í tillögum ríkisstjórnarinnar. Það eru varnir fyrir heimilin og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Þótt Seðlabankinn segi verðbólgu fara lækkandi þá kostar nákvæmlega ekkert að setja inn varnir áður en skaðinn er skeður. Slík varúðarráðstöfun kemur í veg fyrir leiðréttingarfíaskó eins og í síðustu kreppu þar sem þeir fengu mest sem þurftu á minnstri hjálp að halda. Gerum þetta fyrir fram núna. Það væri betri bragur að því.

Nú er einnig kominn tími til að huga að menntakerfinu. Það er fyrirsjáanlegt álag á menntakerfið næsta haust miðað við spár um atvinnuleysi. Þar eru tækifæri til að leggja vel í rannsóknasjóði og í almenn framlög. Allt þetta segir okkur líka að þessi ríkisstjórn með femínista og græningja í forsvari var ekki tilbúin með nein stór fjárfestingarverkefni sem eru græn og atvinnuskapandi fyrir konur t.d. Það var ekki einu sinni stórt, grænt femínískt verkefni á teikniborðinu. Ég segi þetta vegna þess að hér er áherslan greinilega lögð á verkefni sem liggja fyrir, eru tilbúin til þess að drífa af stað á þessu ári. Auðvitað er mikilvægt að tvöfalda brýr og malbika vegi. Mér finnst líka mikilvægt að koma flugvallarmálum landsbyggðarinnar í lag, setja 6 milljarða í samgöngumannvirki og 2 milljarða í viðhald á byggingum. Þetta er allt mikilvægt. En það er ákveðin forgangsröðun sem endurspeglast í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar sem vekur athygli á götunum í henni. Þótt ég fagni ýmsu í þessum áætlunum, eins og því að það standi til að efla loksins snjóflóðavarnir og styrkja innviði okkar gegn óveðrum eins og við sáum um daginn, þá sakna ég margs sem út af stendur.

Nú er ég ekki að segja að ríkisstjórnin eigi ekki að tvöfalda allar brýr og malbika alla vegi í landinu en það mætti skoða hvað þarf til þegar á heildina er litið, a.m.k. mætti leggja jafn mikið í nýsköpun og grænar lausnir. Tækifærin eru þar til staðar eins og sést með Tækniþróunarsjóð. Ég sé ekki að það sé gert ráð fyrir því að styrkja loftslagssjóð. Hvers vegna ekki? Af hverju þurfa rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar einungis að fá 1,7 milljarða í innspýtingu þegar við vitum að þessar greinar eru framtíðin, þegar við vitum að þar er um að ræða arðbærar fjárfestingar? Bara Tækniþróunarsjóður einn gæti tekið alla þessa fjárhæð, 1,7 milljarða, og komið henni í arðbær nýsköpunarverkefni og til frumkvöðla á örskotsstundu.

Píratar leggja áherslu á nokkur atriði á þessum tímapunkti. Það þarf að tryggja varnir fyrir heimili landsins. Þar þarf að huga að viðkvæmum hópum, ekki gleyma neinum hópum núna eins og gleymdust síðast. Hugum að viðkvæmum hópum á þessum tímapunkti, að öldruðum, öryrkjum, fátækum, námsmönnum, leigjendum, öllum sem við gleymdum í síðasta hruni. Þá þarf að tryggja fjármögnun heilbrigðiskerfisins og aðgang fólks að heilbrigðiskerfinu á þessum tímum. Að lokum þarf að setja allt í botn í nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins og í öllum landshlutum. Það er búið að leggja til aðgerðir til að halda fyrirtækjum á lífi en það vantar fyrirsjáanlegt skjól fyrir heimilin ef allt fer á versta veg, sem getur gerst mjög skyndilega. Það er fyrirsjáanlegur kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna faraldursins. Það kostar ekkert að tryggja fjármögnun núna í stað þess að gera það eftir á.

Það er jákvæður tónn í fjárlaganefnd og ég hlakka til þess að sjá þingið taka á þessum málum. Ég vona innilega að jákvæði tónninn skili sér í góðum tillögum til afgreiðslu þingsins en við spyrjum að leikslokum með það því að dæmin sýna að ýmiss konar jákvæðir tónar hafa skilað sér á misgóðan hátt.