150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögur um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak þar sem gert er ráð fyrir því að til sérstakra verkefna verði varið 15 milljörðum kr. Aðstæður eru vægast sagt sérstakar og við erum sem samfélag að reyna að bregðast við áfalli sem við vitum ekki alveg á þessari stundu hversu mikið verður. Þó er ljóst að það verður umtalsvert. Það skiptir miklu máli við þessar aðstæður að við grípum til ráða sem veita okkur öllum, atvinnulífinu og almenningi í landinu, tiltrú á að verið sé að gera það sem skynsamlegt er og gera nóg. Þá er betra á síðari stigum að geta dregið úr ef í ljós kemur að ekki var þörf á eins miklu átaki og ráðist var í.

Þær tillögur sem hér liggja fyrir eru að mörgu leyti ágætar, í þeim er mjög margt gott. Ég tel samt nauðsynlegt að gera betur og ég held að það sé líka mjög mikilvægt að við hugsum í senn til skamms tíma, sem er það sem brýnast er að takast á við, en líka til lengri tíma. Við megum ekki gleyma því sem við höfum því miður stundum gleymt í fortíðinni, að fjölbreytni í atvinnulífinu er okkur gríðarlega mikilvæg. Við sjáum núna að stærsta höggið verður í ferðaþjónustunni sem hefur byggst alveg gríðarlega hratt upp. Við höfum orðið mjög háð ferðaþjónustunni. Áður urðu aðrar atvinnugreinar svona stórar og fyrirferðarmiklar og ég held að það sé mjög gott að huga að því til lengri tíma að reyna að breyta til og gera atvinnulífið fjölbreyttara. Þess vegna tel ég og við í Viðreisn mjög mikilvægt að við hugsum til nýsköpunar í landinu. Við teljum raunhæft og skynsamlegt að grípa til ráðstafana sem hafa áhrif til skemmri tíma en ekki síst til lengri tíma. Í því sambandi höldum við að skynsamlegt sé að lyfta svokölluðu endurgreiðsluþaki vegnar rannsókna og þróunar en það er þannig að fyrirtæki sem stunda nýsköpunar- og þróunarstarfsemi geta fengið frádrátt frá skatti vegna slíks starfs. Ég tel mjög mikilvægt að við hækkum það til að efla rannsóknir og nýsköpun.

Á sama hátt er mikilvægt að við beinum fjármagni til sjóða eins og Tækniþróunarsjóðs. Það liggur fyrir að hjá þessum sjóðum sem hafa gert mikið gagn er hlutfall umsókna sem fá styrk mjög lágt. Það liggur á bilinu 10–14%. Það er ljóst að mjög margar góðar hugmyndir og mörg verkefni fá ekki brautargengi þótt þau hafi verið metin fullverðug en peningar eru einfaldlega ekki til. Benda má á önnur verkefni sem eru líka brýn, eins og t.d. það að fjárfesta myndarlega í og hefja byggingu á hjúkrunarheimilum. Við vitum að þar er mikill skortur. Það að byggja hjúkrunarheimili er því liður í að leysa vanda sem við stóðum frammi fyrir áður, en það er vinnuaflsfrekt. Það eru samgöngumannvirki sem þarf að ráðast í og þar er líka mjög mikilvægt að við hugum að því að ráðast í framkvæmdir sem eru arðbærar en skapa um leið vinnu. Þar er hægt að gera betur að okkar mati. Má þar nefna verkefni eins og brýr við Ölfusá og Hornafjarðarfljót. Það ætti að ráðast strax í þær framkvæmdir. Það er hægt.

Almennt held ég að rétt sé að segja að hér séu tillögur sem sumar eru mjög góðar, aðrar síðri og mætti setja spurningarmerki við enn aðrar. Á þessu stigi máls held ég að það sé mjög mikilvægt að þeir sem um þetta fjalla í framhaldinu ræði saman, leggi saman í púkk og reyni að bæta þessar tillögur. Við í Viðreisn höldum að bæta þurfi í, það þurfi að færa örlítið til, eða jafnvel talsvert, áherslur í þessum fjárfestingum. Ég er sannfærður um að ef ríkisstjórnin hlustar og stjórnarandstaðan vandar sig getum við bætt þetta og getum þá framkallað plan á þessu sviði sem verður okkur til heilla þegar upp er staðið. Ég heiti á stjórnvöld og stjórnarandstöðu að taka höndum saman. Best er að geta gert þetta í sátt og samlyndi. Auðvitað eru áherslur mismunandi en þegar upp er staðið held ég að það ætti að vera hægt að ná góðum árangri fyrir samfélagið á þessum erfiðu tímum.