150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

frysting launa og fleiri aðgerðir.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir við þessa tillögu ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis tek ég fram að ágætissamstarf hefur tekist um allar helstu tillögur þó að menn greini á um umfangið. Í þeim tillögum sem við munum ræða hér í dag er m.a. tekist á um hvort auka eigi mjög við fjárfestingarpakkann eða fjárfestingarhluta þessarar áætlunar.

Hér er komið inn á launamálin. Við leggjum núna til annað árið í röð að því verði frestað að hækka laun æðstu embættismanna sem taka laun samkvæmt því fyrirkomulagi sem tók við eftir að kjararáð var lagt niður. Ég held að það sé mikilvægt. Ekki hefur komið til skoðunar að fara í þessu árferði að hækka skatta, hvorki fjármagnstekjuskatt né að koma á fjórða skattþrepinu. Ég tel að það hefði neikvæð áhrif við þessar aðstæður. Fjárhæðirnar sem menn væru að reyna að sækja og voru nefndar í fyrirspurninni skipta engu máli í hinu stóra samhengi hlutanna. Þetta væri skaðleg aðgerð að mínu áliti. Miklu nær er að beina sjónum sínum að því hvar við getum örvað og séð til þess að fyrirtækin sem eru að verða fyrir mestum áhrifum af útbreiðslu veirunnar verði í stakk búin til að láta til sín taka þegar upp er staðið, þ.e. þegar faraldurinn er afstaðinn. Þar getur skipt máli að við í þinginu höfum glöggar upplýsingar frá degi til dags og viku til viku um það sem er að gerast í atvinnurekstri í landinu. Ég held að við séum bara rétt byrjuð að sjá í trýnið á þeim afleiðingum sem birtast okkur í hópuppsögnum núna en á næstu vikum mun safnast í sarpinn miklu meira sem getur orðið okkur tilefni til að koma með aðrar tegundir af aðgerðum hér. Það verða þá ekki af minni hálfu hugmyndir um skattahækkanir.