150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

frysting launa og fleiri aðgerðir.

[10:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Engar skattahækkanir í pípunum hjá hæstv. ráðherra. En nú þegar við horfum fram á veginn, sem við gerum þó að við séum að takast á við ástandið í dag, er samhliða því væntanlega verið að leggja drög að fjármálaáætlun uppi í ráðuneyti, sem á að koma hingað fyrir þingið fyrir sumarið, og væntanlega farið að setja niður grófar hugmyndir um hvernig fjárlög eða síðari fjáraukalög ársins gætu litið út. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvernig hyggst ríkisstjórnin brúa bilið sem verður í ríkisbókhaldinu ef ekki með því að finna breiðu bökin og auka tekjur? Munu aðgerðir stjórnvalda færast frá því fjárfestingarátaki sem við erum að vinna með núna og yfir í niðurskurð seinna á árinu eins og oft er hætta á að gerist á tímum efnahagsniðursveiflu? Verður litið á störf á opinberum vinnumarkaði sem tæki til að jafna sveiflur í efnahagsmálum? (Forseti hringir.) Mun ríkisstjórnin jafnvel freistast til að fresta útgjaldafrekum en mikilvægum úrbótum eins og t.d. lengingu fæðingarorlofs?