150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[10:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Frumvarpið er hluti af nauðsynlegum og umfangsmiklum ráðstöfunum íslenskra stjórnvalda vegna efnahagsáfalla sem fylgt hafa Covid-19 faraldrinum. Markmið aðgerðanna, hvort heldur er á sviði peningamála eða ríkisfjármála, er og verður að verja hag heimilanna og standa við bakið á fyrirtækjum. Óvissa er mikil og aðstæður síbreytilegar. Það er því mikilvægt, herra forseti, að stjórnvöld séu tilbúin að bregðast strax við breyttum aðstæðum með skynsamlegum og hnitmiðuðum aðgerðum.

Frumvarpið kemur til viðbótar lögum sem Alþingi hefur þegar sett vegna áhrifa faraldursins, svo sem um greiðslu atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli.

Í 1. gr. frumvarpsins er launagreiðendum veitt heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum staðgreiðsluskila á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020 til 15. janúar á komandi ári með möguleika á greiðsludreifingu þeirrar skuldar sem þannig safnast fram til 15. ágúst 2021.

Við umfjöllun nefndarinnar hafa komið fram sjónarmið um að skilyrði fyrir nýtingu heimildar til frestunar gjalddaga opinberra gjalda veiti ekki nægilegt svigrúm og geti takmarkað möguleika á að úrræðin nýtist fyrirtækjum sem raunverulega þurfa á þeim að halda. Við þær aðstæður sem úrræðunum er ætlað að mæta, einkum í ljósi mikillar óvissu og skorts á fyrirsjáanleika, er eðlilegt að eftirlitsaðili, þ.e. Skatturinn, hafi svigrúm til að meta aðstæður í ólíkum tilfellum en sé ekki bundinn af nákvæmlega skilgreindum viðmiðum.

Nefndin leggur til breytingar á 1. gr. frumvarpsins sem miða að því að veita Skattinum rýmra svigrúm til að meta hvort grunnskilyrði fyrir nýtingu úrræðisins um að launagreiðandi eigi í verulegum rekstrarörðugleikum sem leiðir með beinum eða óbeinum hætti af heimsfaraldri kórónuveiru teljist fullnægt í einstökum tilvikum. Önnur skilyrði sem talin eru í 1. gr., þar með talið um að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld sem voru komin á gjalddaga í lok síðasta árs og rekstrarörðugleikar teljist ekki til staðar í skilningi ákvæðisins hafi arður verði greiddur á árinu 2020, telur nefndin rétt að láta standa í ákvæðinu. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fyrirtæki séu meðvituð um að vegna eðlis fyrirgreiðslunnar séu sett ströng skilyrði, m.a. um arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum.

Með lögum nr. 17/2020 sem samþykkt voru á Alþingi 13. mars sl. var gjalddaga helmings þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds sem var á gjalddaga 1. mars sl. frestað um mánuð. Sá hluti greiðslna sem frestaðist hefur gjalddaga 1. apríl nk. og eindaga 14 dögum síðar. Ljóst er að miklu skiptir fyrir mörg þeirra fyrirtækja sem nýttu úrræðið að kostur verði gefinn á frekari frestun þessarar greiðslu. Jafnframt er ljóst að ekki dugir að líta svo á að þessi hluti falli innan gjalddaga 1. apríl sem heimilt er að fresta samkvæmt ákvæðum 1. og 2. gr. frumvarpsins þar sem þrengri skilyrði eru fyrir frestun á grundvelli þeirra en samkvæmt lögum nr. 17/2002.

Nefndin telur því farsælast að við frumvarpið bætist greinar þar sem kveðið er á um þær breytingar á bráðabirgðaákvæði VI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda annars vegar og bráðabirgðaákvæði X í lögum um tryggingagjald hins vegar að í stað 1. apríl 2020 verði gjalddagi ákveðinn 1. janúar 2021 og þar með verði eindagi gjaldanna 15. janúar 2021.

Nefndin leggur til breytingu á ákvæði um barnabótaauka í b-lið 3. gr. þannig að kveðið verði á um að við álagningu opinberra gjalda 2020 skuli til viðbótar almennum barnabótum samkvæmt A-lið 68. gr. annars vegar greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 42.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá greiddar barnabætur og hins vegar skuli greiða þeim sem ekki eru ákvarðaðar barnabætur vegna tekjuskerðingar sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni. Í ákvæðinu verði tekið skýrt fram að sérstakur barnabótaauki teljist ekki til skattskyldra tekna og leiði ekki til skerðingar annarra tekna, svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verði barnabótaaukanum heldur ekki skuldajafnað á móti vangreiddum gjöldum eða meðlögum.

Í b-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum verði út þetta ár heimilað að dreifa hverri greiðslu á tvo gjalddaga. Að teknu tilliti til umsagna um framangreinda tillögu og að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið leggur nefndin til að miða skuli alfarið við seinni gjalddagann, þ.e. 5. dag annars mánaðar eftir lok hvers tveggja mánaða uppgjörstímabils. Með því móti verði enn frekar komið til móts við innflytjendur vegna greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem eru tollafgreiddar frá mars 2020 og út árið. Gjalddagi aðflutningsgjalda fyrir janúar og febrúar var 15. mars og mun breytingin því fyrst koma til vegna uppgjörstímabils mars og apríl. Gjalddagi þessa tímabils verður því 5. júní nk. Með breytingunni verður innflytjendum veittur 20 daga aukinn frestur til að skila virðisaukaskatti í tolli, þ.e. svokölluð tollkrít, vegna innflutnings og í upphafi vegna tímabils mars og apríl og síðan út þetta ár.

Samhliða þessari breytingu leggur nefndin til breytingu á c-lið 5. gr. frumvarpsins þannig að heimilt verði að færa virðisaukaskatt viðkomandi uppgjörstímabils vegna tollafgreiðslu til innskatts þrátt fyrir að gjaldföllnum virðisaukaskatti sem lagðist á við tollafgreiðslu hafi á þeim tíma ekki verið skilað. Af breytingunni leiðir að gjalddagi virðisaukaskatts í tolli vegna innflutnings og gjalddagi virðisaukaskatts af viðskiptum innan lands vegna sama uppgjörstímabils mætast. Sé innskattur hærri en útskattur þannig að gjaldandi eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts verður unnt að skuldajafna henni á móti gjaldföllnum virðisaukaskatti í tolli vegna innflutnings.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að þetta er frekar tyrfið. Það tók okkur nefndarmenn stundum dálítinn tíma að átta okkur á þessu.

Fyrir nefndinni komu einnig fram þau sjónarmið að við núverandi aðstæður væri þörf á því að koma til móts við atvinnulífið með öflugri aðgerðum en lagðar eru til í frumvarpinu þegar kemur að gjalddaga virðisaukaskatts sem er núna 6. apríl.

Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að tvö ný bráðabirgðaákvæði bætist við lög um virðisaukaskatt. Annars vegar er lagt til að á árinu 2020 skuli gildisdagur þeirra inneignarskýrslna sem skilað er á tilskildum tíma vera sá sami og gjalddagi viðkomandi uppgjörstímabila. Breytingartillögunni er ætlað að tryggja að inneign samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu sem berst fyrir og á gjalddaga og sætir venjubundinni afgreiðslu fái sama gildisdag og gjalddagi uppgjörstímabilsins. Með því móti reiknast ekki vextir á virðisaukaskatt í tolli sem er ógreiddur á gjalddaga ef inneign er til staðar sem hægt væri að skuldajafna á móti.

Hins vegar er lagt til að á ótvíræðan hátt verði kveðið á um að í ljósi aðstæðna skuli Skattinum heimilt að fella niður álag vegna vanskila á virðisaukaskatti samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra vegna uppgjörstímabila ársins 2020.

Mikil umræða varð í nefndinni um hvort þær aðgerðir til greiðslufrests á opinberum gjöldum myndu veita fyrirtækjum í miklum rekstrarvanda nægjanlegt skjól. Ljóst er að nokkurn tíma mun taka að sjá til lands í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur útbreiðslu veirunnar og nauðsynlegt er að stjórnvöld sýni einbeittan vilja til aðstoðar. Fjármálaráðuneytið og skattyfirvöld hafa í samtölum við nefndina lýst miklum vilja til að beita þeim úrræðum sem til staðar eru til að koma til móts við þau fyrirtæki sem þurfa á greiðslufresti að halda vegna fyrrnefnds. Nefndin vill í því sambandi árétta mikilvægi þess að ráðherra beini þeim tilmælum til Skattsins að álag verði ekki lagt á vanskil á virðisaukaskatti á gjalddaga í apríl. Jafnframt verði ákvæði 12. gr. laga um innheimtu opinberra gjalda beitt til greiðsludreifingar á opinberum gjöldum eftir því sem frekast er unnt fyrir þau fyrirtæki sem á slíkum stuðningi þurfa að halda. Æskilegt væri að Skatturinn gæti boðið upp á rafræna umsókn um greiðsluáætlun í samræmi við ákvæði laganna.

Í umsögn Bílgreinasambandsins um frumvarpið var hvatt til þess að viðhald ökutækja yrði fellt undir a-lið 5. gr. þar sem heimilaðar eru endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu manna við íbúðar- og frístundahúsnæði. Nefndin telur góð rök standa til þess að heimilt verði að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bifreiðaviðgerðir sem fer fram á því tímabili sem ákvæðið tekur til að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum og leggur til breytingu á a-lið 5. gr. frumvarpsins í því skyni.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar eru lagðar til breytingar á 12. og 13. gr. frumvarpsins sem og lið 7.32 í 4. gr. frumvarps til fjáraukalaga 2020 sem kemur til umfjöllunar á eftir. Leggur ráðuneytið til að í stað þess að í 12. gr. verði kveðið á um heimild ríkissjóðs til að undirgangast ábyrgðir í tengslum við samning við Seðlabankann um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til lánastofnana til að auðvelda viðbótarlán til fyrirtækja verði í ákvæðinu gert ráð fyrir að ríkissjóði sé heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána og að fjármála- og efnahagsráðherra verði heimilt að semja við Seðlabankann um að annast framkvæmdina gagnvart lánastofnunum.

Að auki leggur ráðuneytið til að við 12. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar sem kveði á um að ráðherra skipi nefnd sem hafi eftirlit með framkvæmd ríkisábyrgða. Réttur nefndarinnar til upplýsingaöflunar verður ótvíræður og ber henni skylda til að skila skýrslu til ráðherra um framkvæmdina á sex mánaða fresti sem ráðherra leggur síðan fyrir Alþingi.

Nefndin telur mikilvægt að eftirlitsnefnd með framkvæmd viðbótarlána með ríkisábyrgð verði komið á fót. Auk þess leggur nefndin til að í 1. mgr. 12. gr. komi fram að í samningi milli ráðherra og Seðlabankans um framkvæmd ákvæðisins skuli kveðið á um grunnskilyrði um viðbótarlán með ábyrgð ríkisins, m.a. um að lántaki greiði ekki arð eða kaupi eigin hlutabréf meðan ríkisábyrgðar nýtur.

Auk þeirra breytinga sem ég hef rakið leggur nefndin til að inn í frumvarpið komi nokkur ný ákvæði, svo sem að bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem heimili stjórn lífeyrissjóðs að setja reglur um innheimtu lægri vaxta vegna iðgjalda sem voru komin fram yfir eindaga. Heimildin taki til iðgjaldatímabils frá 1. janúar sl. til 1. janúar 2021.

Í tengslum við samkomulag lánveitenda um tímabundna greiðslufresti á lánum fyrirtækja hefur verið lögð áhersla á að hafa skilmálabreytingar eins einfaldar og mögulegt er í framkvæmd og segir í samkomulaginu sem Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt að frestaðar greiðslur vaxta og afborgana skuli leggjast við höfuðstól og skuli samningstíminn lengjast um sem nemur fjölda frestaðra afborgana. Gerir nefndin ráð fyrir því að skilmálabreytingar á lánum einstaklinga verði með svipuðum hætti.

Framangreindum skilmálabreytingum mun óhjákvæmilega fylgja mikið magn skjala sem að óbreyttu þyrfti að undirrita með eiginhandarundirritun og þinglýsa. Nefndin telur ljóst að slíkt geti verið nær ómögulegt í framkvæmd þegar þúsundir einstaklinga sæta sóttkví eða einangrun, auk þess sem samkomubann og aðrar ráðstafanir stjórnvalda miða að því að takmarka náin samskipti fólks. Nefndin telur því æskilegt að skilmálabreytingar geti að mestu farið fram með fullgildum rafrænum undirskriftum en beinir því einnig til lánastofnana að leita lausna og leiðbeina fólki sem ekki hefur rafræn skilríki.

Þar sem ekki er hægt að þinglýsa skjölum sem hafa verið undirrituð rafrænt leggur nefndin til að við þinglýsingalög bætist ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um að viðaukar við veðbréf sem þannig eru undirritaðir, þar sem kröfuhafi er opinber stofnun, viðskiptabanki, sparisjóður eða lánastofnun, skuli hafa sömu réttaráhrif og ef þeim væri þinglýst og þeir samþykktir af síðari veðhöfum.

Nefndinni barst ábending frá velferðarnefnd um að fella þyrfti brott ákvæði 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar til að tryggja að fiskvinnslufólk hefði sama rétt til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli og annað launafólk á tímabilinu 15. mars til 1. júní 2020. Nefndin gerir tillögu í samræmi við það.

Í samræmi við tilkynningu frá Stjórnarráðinu sem gefin var út 27. mars 2020 leggur nefndin til að við lög nr. 79/2019, þar sem kveðið er á um launafyrirkomulag tiltekinna hópa, m.a. þjóðkjörinna fulltrúa, bætist bráðabirgðaákvæði um að hækkun launa þeirra sem falla undir II.–VII. kafla laganna, þ.e. alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara sem koma á til framkvæmda 1. júlí 2020 verði frestað til 1. janúar 2021. Telur nefndin að sú frestun sé bæði eðlileg og sanngjörn í ljósi aðstæðna í íslensku efnahagslífi.

Nefndin leggur einnig til að við lög um almannatryggingar bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að sérstaka eingreiðslu að fjárhæð 20.000 kr. skuli greiða örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum 1. júní 2020. Eingreiðslan skuli ekki teljast til skattskyldra tekna greiðsluþega og ekki leiða til neinnar skerðingar annarra greiðslna.

Herra forseti. Nefndin undirstrikar að frumvarp þetta getur aldrei talist lokahnykkur í aðgerðum stjórnvalda til varnar íslensku efnahagslífi. Náin og góð samvinna Alþingis, ríkisstjórnar, Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins skiptir sköpum þegar tekist er á við efnahagslega erfiðleika.

Seðlabanki Íslands hefur stigið fast niður í aðgerðum á sviði peningamála. Á síðustu tveimur vikum hefur bankinn lækkað vexti um 1 prósentustig. Meginvextir bankans eru nú 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Svigrúm er því til frekari vaxtalækkana sé þess þörf. Bindiskylda banka við Seðlabankann hefur verið lækkuð um 40 milljarða. Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að miðla meira lausafé út í kerfið ef nauðsyn krefur. Þá aflétti bankinn sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki sem auðveldar bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki þar sem þá myndast allt að 350 milljarða svigrúm til nýrra útlána.

Nefndin undirstrikar nauðsyn þess að bankakerfið nýti þetta aukna svigrúm til að standa við bakið á viðskiptavinum sínum. Vaxtalækkun, afnám sveiflujöfnunaraukans, lægri bindiskylda lausafjár og lækkun sérstaks bankaskatts verður að birtast í hagstæðari lánakjörum fyrirtækja og heimila.

Sú ákvörðun peningastefnunefndar 22. mars sl. að hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði styður við ríkisfjármálastefnuna og styrkir markmið Seðlabankans um að tryggja jafnt heimilum og fyrirtækjum lægri fjármögnunarkostnað.

Alþingi hefur þegar samþykkt frumvarp um hlutastörf þar sem ríkissjóður greiðir allt að 75% launa fólks. Með hlutastarfaleiðinni er verið að verja störf og tryggja eins og unnt er að ráðningarsamband milli launafólks og fyrirtækja haldist. Reiknað er með að kostnaður vegna þessa geti orðið um 22 milljarðar kr. og er það örugglega ekki ofáætlað. Þá var fyrirtækjum gefinn kostur á að fresta gjalddaga helmings opinberra gjalda í mars og apríl, en nefndin leggur til að sá frestur verði framlengdur til 15. janúar nk. Áætlað er að umfangið verði um 11 milljarðar. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum verður fyrirtækjum með samþykkt frumvarpsins jafnframt gefinn kostur á að fresta allt að þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds fram á næsta ár til að bæta lausafjárstöðu sína. Ætla má að staðgreiðsla þeirra skatta sem um ræðir, tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds hjá launagreiðendum öðrum en opinberum aðilum, geti numið um 100 milljörðum kr. samanlagt á þriggja mánaða tímabili. Afnám gistináttagjalds til ársloka 2021, úttekt séreignarsparnaðar og aukin endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu eru aðgerðir til að létta undir með atvinnulífinu og örva það. Mikilvægur hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er að auka fjárfestingar hins opinbera á þessu ári um samtals 22,5 milljarða kr. Þar af er gert ráð fyrir að opinber fyrirtæki fjárfesti fyrir 4,6 milljarða. Þetta kemur til viðbótar þeim fjárfestingum sem þegar voru áætlaðar og má því ætla að fjárfestingar hins opinbera nemi á þessu ári u.þ.b. 97 milljörðum kr.

Þá skipta miklu breytingarnar sem nefndin leggur til um framlengingu frestunar á gjalddögum aðflutningsgjalda samhliða heimild til að færa allan virðisaukaskatt til innskatts á uppgjörstímabili þrátt fyrir að virðisaukaskatti vegna innflutnings hafi á þeim tíma ekki verið skilað. Hið sama verður sagt um sérstaka heimild fyrir Skattinn til að fella niður álag vegna vanskila á virðisaukaskatti í samráði við ráðherra í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru.

Ríkisábyrgð á lánum til fyrirtækja samhliða lækkun bankaskatts, afnámi sveiflujöfnunaraukans og lægri bindingu lausafjár eykur svigrúm bankakerfisins til útlána til fyrirtækja og heimila sem auðveldar þeim að standa í skilum og viðhalda ráðningarsambandi fyrirtækja við starfsfólk. Um leið geta fyrirtækin verið betur í stakk búin til að ná viðspyrnu þegar óvissuástandi lýkur. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að fjármálafyrirtæki standi þétt við bakið á atvinnulífinu.

Herra forseti. Það var ekki einfalt að afgreiða þetta frumvarp. Ég vil hins vegar nota tækifærið til að þakka nefndarmönnum sérstaklega fyrir samstarfið. Við vorum ekki alltaf sammála um allt en það var alveg greinilega eindreginn vilji allra í nefndinni að standa þannig að verki að við hefðum nokkurn sóma af. Sumum finnst ekki nægilega langt gengið hér og undir margt get ég tekið í þeim efnum. Ég segi hins vegar að það er alveg ljóst, og öllum nefndarmönnum hefur verið það ljóst, að þetta er bara fyrsti leikhluti. Ég veit ekki hversu margir leikhlutarnir verða þegar upp er staðið. Það er líka ljóst í mínum huga að þegar við sjáum betur hver staðan er raunverulega hjá fyrirtækjum verðum við í efnahags- og viðskiptanefnd örugglega reiðubúin að bretta upp ermar, hefja aftur störf og fara í þau verkefni sem við þurfum að fara í. Sú mynd mun skýrast verulega eftir 6. apríl.

Ég ítreka þakkir mínar til allra nefndarmanna og ekki síst fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þau ganga fram af hreinskilni og heilindum þó að við værum ekki sammála öllu í meðförum nefndar.

Hv. þingmenn Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Víglundsson og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með efnislegum fyrirvörum sem fylgja nefndarálitinu. Inga Sæland sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni er einnig með athugasemd sem fylgir álitinu.

Nefndin ítrekar enn og aftur að ljóst er að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með þessu frumvarpi. Samþykkt þess með þeim breytingum sem nefndin leggur til er hins vegar stórt skref í rétta átt. Markmiðið er að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Ljóst er að á komandi dögum og vikum verða stjórnvöld sem og aðrir að fylgjast grannt með gangi mála og halda áfram að leita allra færra leiða til að mæta þeim áskorunum sem til staðar eru.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem eru lagðar fram á sérstöku þingskjali. Undir álitið skrifa hv. þingmenn sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Víglundsson, með efnislegum fyrirvara, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, með efnislegum fyrirvara, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með efnislegum fyrirvara, Smári McCarthy, með efnislegum fyrirvara, og Willum Þór Þórsson. Auk þess er eins og ég sagði áður athugasemd frá Ingu Sæland, áheyrnarfulltrúa í nefndinni.