150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir samstarfið í nefndinni. Við þær hörmulegu aðstæður sem við horfum nú upp á, og erum ekki enn búin að sjá hvernig þetta verður allt saman þegar yfir lýkur, eru til aðilar sem vilja gjarnan græða á stöðunni, stunda óheilbrigð viðskipti, markaðsmisferli og jafnvel innherjasvik. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að stjórnvöld hafi nægilega góð tæki til að fylgjast með slíkum aðilum og stöðva þá eða hvort við þurfum að koma upp nýjum tækjum til slíks eða styrkja þau sem stjórnvöld hafa til eftirlits með slíkum óheilbrigðum viðskiptum.