150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:15]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég hef enga ástæðu til að ætla að við þurfum að koma upp einhverri nýrri stofnun til að fylgjast með. Ég held hins vegar að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hafa áhyggjur af því að í svona ástandi reyni einhverjir óprúttnir aðilar að nýta sér það. Þegar tekin er ákvörðun um að ríkið komi til móts við fyrirtæki og hjálpi þeim að komast yfir erfiðasta hjallann eru hugsanlega einhverjir sem munu nýta sér það. Ég treysti Skattinum mjög vel til að fylgja því eftir. Alveg með sama hætti er hætta til staðar þegar ákveðið er að veita ríkisábyrgðir á hluta af lánum fyrirtækja. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökum höndum saman og samþykkjum að komið verði á fót sérstakri eftirlitsnefnd með því og eftirlitsnefndin á að gefa ráðherra skýrslu og ráðherra á að gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd þessa.

Ég held að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við sem erum í þessum sal séum líka á vaktinni.