150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Það er margt gott í þessu frumvarpi og ég lýsi því yfir að við í Miðflokknum viljum svo sannarlega leggja okkar af mörkum í þessum efnum. Ég hefði viljað sjá ákveðnar breytingar með betri hætti en þetta er fyrsta skref og mikilvægt og svo verðum við að endurmeta stöðuna fljótlega aftur og sjá hvort þær beri þann tiltekna árangur sem við væntum í þessum efnum.

Það sem mig langaði aðeins að koma inn á við hv. þingmann er lækkun á bankaskattinum. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að hann vænti þess að hagstæðari kjör yrðu fyrir heimili og fyrirtæki við lækkun skattsins. Ég tek heils hugar undir það en mig langar að spyrja hv. þingmann um arðgreiðslur banka. Þeir hafa verið að kaupa eigin bréf og þá á ég sérstaklega við einkabankana. Verður gerð krafa um að hluthafar skili þessu til baka, þ.e. (Forseti hringir.) þeir noti eigið fé til að mæta þessum áföllum? Og nú er verið að frysta laun æðstu stjórnenda ríkisins. Hvað með laun bankastjóranna? (Forseti hringir.) Eiga þau ekki að lækka fyrst verið er að fara í þessar aðgerðir og nýta allt sem hægt er í þeim efnum?