150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður sagði og styð hann í því. Kjarni málsins er þó sá að almenningur á Íslandi er brenndur af viðskiptum sínum við bankana eftir bankahrunið. Þess vegna ríkir mikil tortryggni um að þeir komi til með að vera eins velviljaðir einstaklingum og fyrirtækjum og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi hér og óskaði eftir. Ég geri það heils hugar einnig en ég nefni t.d. að þegar til stóð að lækka bankaskattinn fyrr á þessu þingi komum við í Miðflokknum með breytingartillögu þess efnis að það yrði skilyrt með þeim hætti að við myndum sjá árangur gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum í landinu, þ.e. að við sæjum að þeir væru að lækka þjónustugjöldin og vextina. Engin þannig úrræði eru til staðar.

Vissulega er mikið í húfi fyrir bankana, ég tek alveg undir með hv. þingmanni hvað það varðar, að fyrirtækin komist í gegnum þessa miklu erfiðleika en ég vil reifa áhyggjur mínar hér. (Forseti hringir.) Það er verið að gera verulega vel við bankana eins og hv. þingmaður nefndi réttilega og þá hefði ég talið æskilegt (Forseti hringir.) að skoða það, t.d. í þeim bönkum sem hafa verið með háar arðgreiðslur eins og í einkabönkunum, hvort ekki væri eðlilegt að þeir skiluðu því til baka og nýttu eigið fé í þessum aðstæðum.