150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta á ekki að vera skjall hér en ég ætla að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, varaformanni efnahags- og viðskiptanefndar, kærlega fyrir samstarfið. Það skiptir mig miklu máli vegna þess að ég var ekki alveg klár á að ég skildi sumt og þá kom hann mér til bjargar. Takk fyrir það.

Það er rétt sem hv. þingmaður vekur athygli á. Það er alveg ljóst að við þurfum að vera tilbúin til þess að gera meira. Ráðstafanirnar sem við höfum verið að gera fela í sér að ýta aðeins boltanum á undan okkur, kannski til að fá svigrúm til að sjá heildarmyndina og átta okkur betur á hversu alvarleg staðan er. En það er líka alveg ljóst að þegar við tökum ákvörðun um að fresta tekjum ríkisins, fresta gjöldum og sköttum fyrirtækja, mun hluti af þessum tekjum glatast vegna þess að fyrirtækin munu því miður (Forseti hringir.) fara í þrot og þar með munu tekjurnar glatast. Það er eins gott að við séum ekkert að fela það (Forseti hringir.) heldur horfast í augu við slíkar staðreyndir.