150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni skjallið. Við getum stofnað til formlegs skjallbandalags hér og nú. Við myndum sjálfsagt fallast í faðma ef það mætti. Ég fagna því að hv. þingmaður hafi skilning á þessu. Ég brýni hann í starfi sínu innan meiri hlutans við að halda þessum sjónarmiðum á lofti. Ég held að það sé mjög varhugavert með skuldirnar, sérstaklega þegar við horfum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Við megum ekki gleyma því að uppistaða íslensks atvinnulífs er örfyrirtæki, fyrirtæki með starfsmenn sem telja einn til tíu. Gríðarlega stór hluti launþega starfar hjá fyrirtækjum af þessari stærðargráðu. Hér erum við að glíma við alveg fordæmalausa efnahagskrísu, algjöra rekstrarstöðvun í raun og veru hjá stórum hluta atvinnulífsins, og við verðum að gæta að því í aðgerðum til lengri tíma að þessi fyrirtæki komi ekki út úr þessari krísu hlaðin skuldum af því að aðgerðir hafi eingöngu miðast við að fresta greiðslu. (Forseti hringir.) Ég held að þetta þurfum við að hafa sérstaklega í huga þegar horft verður til aðgerða til lengri tíma litið.