150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg kórrétt hjá hv. þingmanni. Ég held að við verðum að búa svo um hnútana í þeim aðgerðum sem við grípum til á næstu vikum og mánuðum að þær miði að því að íslenskt atvinnulíf, litlu og meðalstóru fyrirtækin alveg sérstaklega, sé í þannig stöðu að fyrirtækin geti gripið tækifærið þegar óáranin er gengin yfir, að við séum ekki búin að koma þeim í þannig stöðu að þau séu í rauninni einhvers konar lifandi lík vegna þess að þau geti sig hvergi hreyft út af skuldum o.s.frv. Við þurfum að tryggja að fyrirtækin komi þannig út úr þessu að þau hafi raunveruleg tækifæri og raunverulega möguleika til að spyrna sér frá þegar tækifæri gefst.

Þar eigum við hv. þingmaður og ég hygg að allir, a.m.k. í efnahags- og viðskiptanefnd, (Forseti hringir.) sameiginlegt markmið í þessum efnum.