150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þegar við verðum komin út úr storminum verðum við að skoða með kynjagleraugum viðspyrnuna sem verður sett í gang vegna þess að í þeim aðgerðum sem gripið er til í dag er kynjaskekkja eins og bent hefur verið á. Þar tek ég heils hugar undir með þingmanninum.

Mig vantar smáútskýringu um barnabótaaukann. Í greinargerð með frumvarpinu segir að áhrif þess á ríkissjóð að greiða 20.000 kr. eða 40.000 kr. til allra barna landsins séu 3,1 milljarður. 80.000 börn sinnum óskertur barnabótaauki, 80.000 sinnum 40.000 kr., eru 3,2 milljarðar. Hvaða tilgangi þjónar tekjutenging þegar ávinningurinn fyrir ríkissjóð er jafn lítill og virðist vera? (Forseti hringir.) Hópurinn sem fær skertar bætur er hvort eð er ekki neitt sem heitið getur. Til hvers að ergja fólk með þessu?