150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir. Eins og fram kemur í máli hv. þingmanns er alveg ljóst að uppi voru skiptar skoðanir í nefndinni um hvort fjármunir ættu að renna úr sameiginlegum sjóðum til fjölskyldna óháð fjárhag þeirra. Það er líka alveg rétt að við eigum svolítið erfitt með að sjá fjárhag fjölskyldna akkúrat núna. Þess vegna er mikilvægt að ítreka enn og aftur það sem fram kemur í nefndarálitinu, að án efa er von á fleiri aðgerðum.

Þá langar mig að koma inn á aðgerð sem ég held að sé brýn og ég talaði mjög fyrir í nefndinni. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir tók að einhverju leyti undir hana og það er sú leið sem við förum í Allir vinna. Þar er farið í gott verkefni sem reyndist vel eins og hv. þingmaðurinn kom inn á og ég held að það sé ekki síst vegna þess að það reynist vel í því að forða þessum atvinnugreinum frá því að lenda í svörtu hagkerfi sem er því miður allt of algengt. Þess vegna held ég að við verðum að bregðast við og horfa sérstaklega á atvinnugreinar þar sem eru fleiri konur. Ég hef vakið sérstaka athygli á þessu hjá Samtökum iðnaðarins og ég á von á því (Forseti hringir.) að þau komi með tillögur til okkar og er þá sérstaklega að horfa til gullsmiða og klæðskera í þeim efnum. Því miður held ég að Allir vinna henti síður hárgreiðslu- og snyrtistofunum. Ég æski þess að hv. þingmaður komi með mér í þá vinnu að hugsa út fyrir boxið og velta því upp hvernig við getum komið til móts við þær mikilvægu stéttir.