150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það mun ekki standa á þeirri sem hér stendur að fara í þá vinnu með hv. þingmanni. Ég hef margoft bent á það og meira að segja áður en aðgerðirnar komu til að gæta þyrfti að kynbundnu atvinnulífi. Staðan núna er ólík því sem var í hruninu. Þó að við séum auðvitað að reyna að læra af því sem gekk upp þar og læra af mistökunum sem gerð voru við þær aðstæður bitnar það ekki alveg eins á sömu stéttum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru karllægar. Það eru settar meiri og stærri fjárhæðir í framkvæmdir á vegum og í greinar sem karlar sinna. Við getum ekki brugðist kvennastéttum í landinu með því að (Forseti hringir.) gera ekki neitt. Þess vegna er pínu skammarlegt að við skulum bæta við fleiri hefðbundnum karlastéttum í tillögum nefndarinnar en ekki kvennastéttum.

Við þurfum hins vegar að gera það og ég fer með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur alla leið í þeim efnum.