150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með þingmanninum og raunar hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur sem nefndi áðan að við þyrftum að einhenda okkur í að finna þessar leiðir. Ég held að það sé hárrétt að það ættum við að gera. Ég held að það sé alveg rétt hjá þingmanninum með karllægu sjónarmiðin, að a.m.k. oftar ef ekki oftast eru valdar þær stéttir sem karlmenn eru meira í.

Þingmaðurinn nefndi annað sem ég held að sé mikilvægt líka og mig langar aðeins að koma inn á í þessu andsvari, sveitarfélögin. Þingmaðurinn nefndi að við þyrftum að horfa til þess með hvaða hætti þau geta tekið þátt í úrræðunum. Það er sérstakt fagnaðarefni að Reykjavík hefur þegar stigið fram í því efni. Ég geri ráð fyrir að í sumar (Forseti hringir.) muni margir námsmenn leita til sveitarfélaganna um sumarvinnu. Telur þingmaðurinn að þingið eða ríkisvaldið gæti með einhverju móti komið til móts við það verkefni?