150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Það er full ástæða til þess í upphafi máls míns að taka undir þakkir nefndarmanna í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til formanns nefndarinnar og raunar nefndarmanna allra fyrir gott samstarf og lausnamiðað í þessu máli enda aðstæður, eins og margoft hefur komið fram hér í dag, býsna sérstakar um þessar mundir. Ég mun í ræðu minni ekki fjalla um allar greinar frumvarpsins enda hafa aðrir þingmenn þegar gert það og komið inn á þá þætti sem ég hefði kannski ella snert á. En það eru gerðar nokkrar veigamiklar breytingar og síðan hafa einnig komið viðbætur í frumvarpinu og ég mun snerta á sumum þeirra.

Það hefur verið sagt í dag og má ítreka það oft og lengi að auðvitað eru þær aðgerðir sem við erum að fara í núna ekki eitthvert endanlegt svar við ástandi enda er útilokað við þær aðstæður sem við erum í núna að svara einhverjum spurningum með endanlegum hætti, að bregðast við ástandi sem er síkvikt með einhverju slíku. Það hefur mikið verið talað um arðgreiðslur og hvernig ætti að taka utan um fyrirtæki sem njóta fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda í tengslum við þessar aðgerðir. En það er mikilvægt að mínu mati að í frumvarpinu er í raun tekið algjörlega fyrir, bæði hvað varðar brúarlánin og fyrirgreiðslur vegna opinberra gjalda, að fyrirtæki sem nýta sér þessar stuðningsleiðir geti greitt sér út arð eða keypt eigin hlutabréf. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli því að það myndi misbjóða siðferðiskennd, held ég, alls þorra þjóðarinnar ef við ætluðum að horfa fram hjá slíkum atriðum. Nefndin gerir breytingartillögu þar að lútandi í algerri samstöðu og það er mjög mikilvægt.

Eins hefur verið töluvert rætt um barnabótaaukann og hvort hann nái þeim markmiðum sem upp er lagt með, þ.e. að mæta barnafjölskyldum sem hafa lent í erfiðleikum vegna skólalokana, sóttkvíar o.s.frv. Barnabótaaukinn er líka ákveðin skilaboð til fjölskyldna í landinu um að stjórnvöld muni eftir því sem þau geta standa með fjölskyldunum og heimilunum. Það hefur nokkuð verið rætt líka um skiptinguna, þ.e. að draga strik við tiltekið tekjubil, og eins og hefur komið fram áður í dag munum við miða við fjölskyldutekjur, ekki einstaklingstekjur, eins og hv. formaður nefndarinnar kom ágætlega inn á fyrr í dag. Nefndin gerir þó þær breytingar á upphæðum að upphæðin í efra bilinu er hækkuð meira en upphæðin í neðra bilinu. Það er að vissu leyti gert til að koma til móts við þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð í dag, að erfitt sé að átta sig á því nákvæmlega hvaða hópar í samfélaginu eru í vanda núna þó að staða þeirra hafi verið á tiltekinn hátt í fyrra. Ég vil hins vegar nefna og tel mikilvægt að menn hugleiði það að ætla má að þeir sem voru í efri tekjubilum á síðasta ári ættu að vera að öðru jöfnu í betri færum nú til að bregðast við ástandinu en þeir sem eru á lægstu launum. Þar liggur kannski meginmunurinn. Síðan má velta því fyrir sér hvort við þurfum ekki að halda áfram að bæta barnabótakerfið og ég tek alveg undir það. En það er ekki hluti af þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem við gerum núna.

Það er ekki gefið að orðið hafi verulegt tekjufall í hópi til að mynda öryrkja sem við mætum þó að vissu leyti með eingreiðslunni í júní. En það er hins vegar mikilvægt að horfa til þess þjóðfélagshóps í þessum aðgerðum því að við getum í rauninni ekki með nokkru móti vitað fyrir víst að einhver tiltekinn hópur hafi ekki orðið fyrir skerðingum. Og við skulum líka muna það, hv. þingmenn, að það er líklegt að einmitt í hópi öryrkja séu þeir einstaklingar sem eru kannski hvað mest í hlutastörfum fyrir, sumir hverjir jafnvel í litlum hlutföllum. Það getur þýtt að þeir eigi ekki aðgang að hlutabótaleiðinni sem við höfum rætt hér undanfarna daga. Þess vegna er mikilvægt að koma til móts við þennan hóp og þetta eru mikilvæg skilaboð til þessara einstaklinga.

Í umræðunni í síðustu viku, nú rennur þetta allt saman en líklega var það í síðustu viku, ræddum við um hlutabótakerfið og þann sviga sem þá var sleginn utan um fiskvinnslufólk vegna þeirra sérstöku reglna sem gilda um atvinnuleysisbætur fyrir þann hóp. Hv. velferðarnefnd hafði á þeim tíma verið fullvissuð um að hægt væri að mæta þeim hópi með fullnægjandi hætti þannig að réttindi þeirra væru sambærileg við réttindi annarra á vinnumarkaði. Síðan hefur hins vegar komið í ljós að svo er ekki, a.m.k. ekki að öllu leyti. Því tekur nefndin ákvörðun um að fjarlægja þá undanþágu sem gilti um það fólk. Fiskvinnslufólk á því, eftir samþykkt þessa frumvarps, að hafa nákvæmlega sömu réttindi og aðrir þrátt fyrir sérákvæði í lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995.

Verkefnið Allir vinna reyndist býsna vel í hruninu. Eins og þingmenn hafa komið inn á er rétt að það verkefni er að vissu leyti dálítið karllægt, einblínir að vissu leyti á þann hluta vinnumarkaðarins sem karlmenn sinna kannski í meira mæli en konur. Ég vil í raun fagna því, frú forseti, að hér í salnum í dag hafa einmitt komið upp hugmyndir og vangaveltur um að við sem stjórnvöld þyrftum kannski að finna leið til að bregðast sérstaklega við þessu og reyna að fá, eigum við að segja eilítið mýkri blæ á þetta verkefni, þetta séu ekki allt verkefni sem snúa að hefðbundnum karlastörfum heldur líka kvennastörfum ef við getum leyft okkur að setja slíka merkimiða á tilteknar starfsgreinar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði um úttröppun á hluta bankaskattsins sé tekið úr sambandi og úttröppunin komi öll til framkvæmda á þessu ári. Þetta er gert til að reyna að þrýsta á bankana að lækka vexti og koma þannig til móts við fjölskyldur og fyrirtæki. Það er jafnframt mikilvægt í því sambandi að Seðlabankinn og raunar efnahags- og viðskiptanefnd sjálf haldi áfram að fylgjast með þessu og fái fullvissu um að raunverulega sé verið að nýta þetta úrræði í þeim tilgangi sem þarna er. Það má til að mynda benda á það sem stendur í hvítbókinni um fjármálamarkaðinn, þar er þetta tiltekna atriði einmitt nefnt sem leið fyrir fjármálakerfið til að lækka vexti. Ég held að það sé mikilvægt.

Þá hefur nokkuð verið rætt í dag um sveitarfélögin og hvernig þau stíga inn í þann vanda sem nú er uppi. Í frumvarpinu eru stigin nokkur skref bæði hvað varðar fasteignagjöldin og heimildir sveitarfélaganna til að víkja frá fjármálareglunum á yfirstandandi þremur árum. Það er mjög mikilvægt. Á móti verðum við að treysta því að sveitarfélögin muni, svipað og Reykjavík tilkynnti núna fyrir helgina, koma til móts við íbúa sína. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar gefið út yfirlýsingu þar að lútandi hvað varðar gjaldtöku og vonandi eru fleiri slík úrræði í farvatninu og vonandi ekki langt að bíða að hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skýri frá því í smáatriðum líkt og Reykjavík með hvaða hætti þau ætli að bregðast við. Þetta er sérstaklega mikilvægt með tilliti til stuðnings við heimilin í landinu. Sveitarfélögin munu þurfa eins og aðrir opinberir aðilar að taka á sig högg vegna þessara aðgerða en byrðarnar munu verða léttari ef fleiri koma að því að bera þær.

Mig langar í lokin, frú forseti, að nefna möguleika sem kannski hefur ekki verið mikið ræddur í því í hvernig við getum tekist á við þennan vanda og það er útgáfa ríkisskuldabréfa. Þetta hefur áður verið gert í kreppum og einnig í sérstökum verkefnum hér á landi. Það muna það kannski einhverjir sem hér eru inni að þegar Íslendingar réðust í það verkefni að leggja hringveginn í kringum landið var almenningi boðið að fjárfesta í ríkisskuldabréfum til að takast á við það verkefni. Nú er yfirstandandi farsótt náttúrlega ekki sambærileg við fjármögnun þess verkefnis en hins vegar gæti hún verið tilefni til þess að gefa þeim sem eru aflögufærir tækifæri til að leggja hluta af fjármunum sínum í ríkisskuldabréf og létta þannig undir með ríkinu. Það má hugsa sér að þetta gæti verið í formi bréfa til sérstakra verkefna og ég nefni þá sérstaklega að menn myndu horfa til þess að bréfin væri græn og menn gætu kannski valið í einhverjum tilfellum að kaupa slík bréf. Ég held að þetta sé a.m.k. eitthvað sem við getum skoðað í framhaldinu. En auðvitað er meginverkefnið að við erum núna að stíga sennilega annað stóra skrefið í þá átt að koma til móts við samfélagið og heimilin og fyrirtækin í landinu. Við munum þurfa að stíga fleiri skref en því skynsamlegri sem þessi skref verða því auðveldara verður viðspyrnan þegar faraldurinn er genginn yfir.