150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þingmanninum um að margt horfir til bóta í afgreiðslu nefndarinnar á þessu máli. Hann ræddi aðeins barnabótaaukann þar sem ég tel stigið skref í rétta átt en sú staða minnir okkur á, eins og þingmaðurinn nefndi, að orðin er knýjandi þörf á að endurskoða kerfið í heild. Ef við værum einfaldlega með barnabótakerfi sem virkaði væri hægt að taka þann pening sem er áætlaður í þetta og setja hann í barnabótakerfið og það myndi nánast sjálfkrafa deila fjármununum þangað sem þeirra er þörf. Nú þarf að bretta upp ermarnar og byggja upp almennilegt barnabótakerfi.

Í nefndaráliti er sagt að við frekari útfærslu á úrræðinu Allir vinna þurfi að leggja áherslu á greinar þar sem konur eru fjölmennar. Mig langar að spyrja hvenær nefndin hafi séð fyrir sér að gera það og hver ætti að gera það. Það kemur ekki fram í greinargerðinni. Nánari útfærsla á sér stað í breytingartillögum nefndarinnar með því að nýrri karlastétt er bætt inn. Svo langar mig að velta því upp hvort Allir vinna sé kannski barn síns tíma, hvort núna sé nokkuð sama knýjandi þörfin á að endurreisa byggingariðnaðinn og var árið 2010 þegar þetta úrræði var smíðað. Er það afritað frá þeim tíma án þess að taka nógu mikið mið af þörf dagsins í dag, sérstaklega í ljósi þess að síðar í dag ræðum við fjárfestingarátak þar sem byggingarbransinn fær aldeilis sitthvað fyrir sinn snúð. Væri þessum fjármunum (Forseti hringir.) betur varið í sértækari aðgerðir á öðrum sviðum en hér er sjónum beint að?