150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet þingmanninn til dáða í að fá efnahags- og viðskiptanefnd til að leggjast yfir þessi mál. Ég minni í því sambandi á að engin starfsáætlun er í gildi þannig að það er ekkert sem heitir páskahlé og hægt að einhenda sér í málið nú þegar. Ég bið hv. þingmann að taka með sér í þá vinnu þá hugsun hvort Allir vinna sé yfir höfuð skapalón sem virkar, annars vegar vegna þess að virðisaukaskattur er einn mikilvægasti tekjustofn ríkisins og allt sem við gerum til að veikja þann tekjustofn þurfum við að gera að vandlega athuguðu máli og hins vegar einfaldlega vegna umfangsins. Í greinargerð frumvarpsins er skotið á að óbreytt úrræði, sem sagt Allir vinna útfært bara fyrir byggingar- og mannvirkjabransann, geti kallað á eftirgjöf af virðisaukaskatti upp á 8 milljarða. Það er þá einn stærsti punkturinn af þeim tæpu 60 milljörðum sem eru í hreinum opinberum framlögum í átaki stjórnvalda sem við fjöllum um í dag.

Hvað bætist svo við þegar bílgreinarnar koma inn? Skaut nefndin á það? Hvað bætist við þegar nýjum stéttum er sífellt bætt við? Ég hvet nefndina til þess, þegar hún fer vonandi að skoða þetta, að athuga hvort þetta sé röng leið og hvort það væri vænlegra til árangurs að bera kennsl á þær stéttir sem þarf að styrkja vegna þeirrar stöðu sem t.d. samkomubann setur þær í og finna síðan hnitmiðaðar leiðir til að gera það.