150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit að við erum sammála um býsna margt. Að því leyti má segja að þessi andsvör beri vissan keim samsvara. Það er allt í góðu. Ég get alveg skilið sjónarmið þingmannsins um að kannski sé Allir vinna svo gott sem óþarft úrræði sem lætur virðisaukaskattskerfinu blæða að vissu leyti. Sem slíkt er það ekki heppilegt til lengri tíma litið. Ég held að það sé rétt hjá þingmanninum að af því að úrræðið er einmitt takmarkað í tíma, til næstu áramóta, ættum við kannski að nota tímann, hvort sem það er í dymbilvikunni eða hvað, til að meta hvaða annars konar úrræði við getum fundið. Ég nefni meiri fjármuni í nýsköpunarúrræði, hönnun, tæknigreinar eða greinar sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni. Þar eru svo sannarlega tækifæri fyrir okkur sem samfélag, eins og ég held að þingmaðurinn sé mér sammála um, til að finna leiðir til að fá betra undirlag til að spyrna okkur upp þegar við erum komin út úr þessari krísu.