150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég ætla í lok þessarar umræðu að þakka kærlega þeim sem tóku til máls. Umræðan var efnisrík og fyrir það á að þakka. Ég taldi hins vegar rétt að taka til máls að lokum vegna þess að ég svaraði hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur illa þegar hún spurði um m.a. möguleika sveitarfélaga á að nýta sér endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði, aðallega vegna þess að ég var ekki á mjög traustu svelli þegar spurningin var fram borin. Eftir að hafa borið mig saman við lögfræðinga, bæði á Alþingi og síðan í fjármálaráðuneytinu, vil ég bara taka fram að allir byggjendur eða eigendur eiga rétt á þessari endurgreiðslu virðisaukans, þ.e. þeir sem eru að byggja eða leggja í viðhaldskostnað íbúðar- eða frístundahúsnæðis, sama hvort það eru einstaklingar, sveitarfélög, leigufélög, húsnæðissamvinnufélög, orlofssjóðir eða aðrir. Meginreglan er sú að húsnæði sem endurgreiðslan tekur til sé ekki notað í virðisaukaskattsskylda starfsemi. Mér þótti rétt og skylt að taka þetta fram vegna þess að mér tókst ekki að svara fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur skynsamlega.

En aftur þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu og þakka nefndarmönnum, félögum mínum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, fyrir langa og stranga fundi. Þetta var ekki alltaf einfalt en okkur tókst að koma þessu í þennan þingsal og nú bíður málið afgreiðslu þingsins á eftir.