150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Við eigum alltaf að vera að horfa til framtíðar og skoða hvernig við komumst þangað. Það er sérstaklega mikilvægt þegar við horfum fram á einhvers konar niðursveiflu. Í þeim málum sem við tölum um hér er fyrsta spurningin: Af hverju ekki að byrja á þeim verkefnum núna sem má byrja á strax og nýtast til framtíðar og þurfa ekki að klárast t.d. 1. apríl 2021 eins og gert er ráð fyrir? Ef við gerum það ekki erum við að fresta þess háttar verkefnum um heilt ár. Þau verkefni sem njóta stuðnings í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar eru vissulega þörf. Það hefur verið kallað eftir flughlaði á Akureyri, akbraut á Egilsstaðaflugvelli, breikkun brúa, framkvæmdum við tengivegi, göngustígum í friðlöndum og ýmsu svoleiðis á undanförnum árum. Ofanflóðavarnir, Stafrænt Ísland og mörg verkefni sem hefur kallað eftir í mörg ár en hafa hingað til síendurtekið endað neðarlega á forgangsröðunarlista ríkisstjórnarinnar. Það þurfti neyðarástand til að þessi mikilvægu verkefni hlytu loksins meðbyr. Hver veit hversu mörg ár í viðbót hefðu liðið þangað til að þessi verkefni hefðu komist á koppinn ef allt hefði gengið sinn vanagang? Þarna er vandamálið, í vanaganginum. Hann verður sérstaklega augljós í niðursveiflu. Vanagangurinn er nefnilega bilaður. Hann er orðinn jafn úreltur og eldsneytisdrifinn sprengihreyfill sem vissulega skilar okkur frá A til B en með tilheyrandi mengun og auðlindasóun. Við þurfum nýjan drifkraft í samfélagið okkar, nýjan, umhverfisvænan og sjálfbæran drifkraft. Sá kraftur stendur okkur til boða t.d. með nýrri stjórnarskrá og velsældarhagkerfi og síðast en ekki síst með átaki í nýsköpun.

Virðulegi forseti. Ég ritaði undir meirihlutaálit fjárlaganefndar varðandi fjáraukann en vegna tæknilegra örðugleika, af því að ég lagði fram sérálit um fjárfestingarátakið, varð þetta voðalega skrýtið og tæknilega séð er ég ekki á nefndaráliti meiri hlutans vegna fjáraukans þó að ég hafi ætlað að vera það og afgreiddi það þannig úr nefnd. Ég vil bara hafa það á hreinu, í anda er ég á því. Ég var þó með nokkra fyrirvara. Fyrsti og helsti fyrirvarinn sem ég hef snýst um ástæðuna fyrir því að geta skrifað undir nefndarálitið yfir höfuð. Í lok nefndarálitsins kemur fram að nefndin vilji árétta að aðgerðum stjórnvalda ljúki ekki með þessu frumvarpi, að þau verkefni sem eru fjármögnuð í þessum fjárauka séu bara fyrstu skrefin til að koma til móts við þau vandamál sem að okkur steðja. Þótt ég hafi athugasemdir um nokkur af þeim verkefnum get ég kvittað undir það að a.m.k. verður að byrja einhvers staðar. Önnur ástæða fyrir því að ég kvitta undir nefndarálitið í anda, af því að ég má það ekki tæknilega, er vegna þess að það var ákveðinn samstarfsvilji í nefndinni. Hann er mikilvægur. Það að vilja a.m.k. laga augljósustu holurnar í frumvarpinu er mjög verðmætt og mikilvægt. Kannski meira um það síðar. Þriðja ástæðan fyrir því að ég kvitta undir nefndarálitið er að ég lít á það samstarf sem varð til í nefndinni sem ákveðna útrétta hönd. Það er augljóst okkur öllum að þetta frumvarp var unnið í flýti og fylgir ekki skilyrðum sem framkvæmdarvaldið þarf að fylgja samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það fylgir ákveðin beiðni um traust að afgreiða mál í svona flýti og að sama skapi ábyrgð að standa ekki í vegi fyrir nauðsynlegri mótspyrnu í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir. Ég get kvittað undir að það þarf a.m.k. að gera það sem er lagt til í þessu nefndaráliti og í ljósi aðstæðna get ég einnig afsakað flýtimeðferðina.

Að því sögðu hef ég einnig nokkra varúðarfyrirvara. Ég tel að hægt væri að ganga lengra í vissum atriðum. Fyrsti fyrirvarinn er vegna málsmeðferðar. Vegna flýtimeðferðar tel ég að fjárlaganefnd verði að fylgjast vel með þeim fjárveitingum sem samþykktar verða vegna fjáraukafrumvarpsins. Fjárlaganefnd þarf einnig að kalla eftir þeim rökstuðningi sem hefði átt að fylgja samkvæmt lögum um opinber fjármál ef málið hefði hlotið eðlilega málsmeðferð, sérstaklega út af fullyrðingum varðandi fjárfestingarátakið að valin hafi verið mannaflsfrek og arðbær verkefni. Eins og er höfum við bara fullyrðingar í höndunum en engin gögn um að verkefnin séu í rauninni mannaflsfrek eða arðbær. Þar koma upp spurningar: Hversu mannaflsfrekt er verkefni um breikkun brúa og hversu lengi er það mannaflsfrekt, samanborið t.d. við sama fjármagn í nýsköpunarátaki? Það er ekkert nema eðlilegt að fjárlaganefnd fái yfirlit yfir þau verkefni sem voru valin og þær upplýsingar sem lágu til grundvallar hverju verkefni um hversu mannaflsfrekt og arðbært það var metið. Miðað við núverandi forsendur fjáraukans eiga öll verkefnin að vera búin 1. apríl 2001. Er þá ekki fyrirsjáanlegt atvinnuleysi þegar öll verkefnin klárast? Bara frestun um eitt ár? Vonandi verður allt komið í gang á öðrum vettvangi til að grípa það og ný verkefni o.s.frv., en það er verið að fara í sérstakt fjárfestingarátak. Það er ekki sjálfsagt að eitthvað annað komi til að grípa það, nema jú, loforð um að það verði tekin önnur skref. Maður á eftir að sjá það, ekki bara í orði heldur á borði.

Annar fyrirvari er vegna þess að þær forsendur sem liggja fyrir um að verkefni sé mannaflsfrekt og arðbært eru upplýsingar sem eru til og við eigum að fá þær upplýsingar afhentar, fá samanburðinn við þau verkefni sem stóðu til boða, t.d. verkefni sem eru í tillögum minni hlutans.

Síðasti fyrirvarinn er vegna alþjóðlega markaðsátaksins sem Íslandsstofa á að fara í þegar aðstæður skapast á erlendum mörkuðum. Það eru óljósar forsendur fyrir því í þessari fjárheimild og fjárlaganefnd þarf að fylgja því betur úr hlaði í kjölfar afgreiðslu málsins.

Alla jafna myndi ég ekki sætta mig við svona málsmeðferð en geri það í þetta skipti með tilvísun í þær aðstæður sem við búum við. Þær afsaka samt ekki svona málsmeðferð, breyta henni bara. Þegar ákvarðanir eru teknar fram hjá hefðbundinni málsmeðferð út af neyðaraðstæðum verður ábyrgð eftirlitsins þeim mun meiri.

Í aðkomu Pírata í þessu máli lögðum við aðaláherslu á þrjú atriði. Í fyrsta lagi að ganga í mótvægisaðgerðir með nýsköpunarátaki, í öðru lagi að veita heimilum landsins varnir og í þriðja lagi að tryggja fjármögnun og aðgang að heilbrigðiskerfinu. Með breytingartillögum nefndarinnar er komið til móts við nauðsyn þess að grípa fyrirsjáanlegt atvinnuleysi með nýsköpunarmöguleikum að einhverju leyti. Þær áherslur birtast í auknum framlögum til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs, framlagi til menningar, íþrótta og lista, til Nýsköpunarsjóðs námsmanna, til grænmetisræktar, í framlögum til sóknaráætlana, til brothættra byggða og í loftslagssjóð. Miðað við umsögn Samtaka iðnaðarins gæti t.d. Tækniþróunarsjóður úthlutað 2 milljörðum til viðbótar, til að mynda í verkefni sem fengu hæstu einkunn í síðustu úthlutun. Einhverjar fjárheimildir eru settar í heilbrigðiskerfið en augljóst er að bregðast þarf betur við í framhaldinu. Til þess eru vissulega varasjóðir og frekari fjáraukalög en það hefði verið ágætt að bregðast við strax en ekki eftir á eins og yfirleitt hefur verið gert. Ríkisendurskoðun hrósaði t.d. því sem var gert í þessu fjáraukafrumvarpi, að leitað væri fjárheimilda áður en stofnað væri til þeirra en ekki eftir á. Það er erfitt fyrir þingið sem á að vera með fjárveitingavaldið þegar framkvæmdarvaldið kemur til þingsins og segir: Ég eyddi miklum pening, þið verðið eiginlega að samþykkja það. Af hverju vorum við ekki spurð áður? Það er skiljanlegt í ýmsum liðum eins og varðandi heilbrigðiskerfið og atvinnuleysi o.s.frv., en það á líka að vera fyrirsjáanlegt. Það er alveg hægt að koma og leita heimilda fyrir fram því að fjárheimildin er vissulega ekki eyðsluheimild heldur bara til að sinna t.d. lögbundnum verkefnum.

Hér kemur fram ákveðin mótsögn í afgreiðslu þessa máls. Annars vegar vildi fólk fá betri upplýsingar um kostnað og möguleika til framkvæmda og vildi ekki leggja til auknar fjárheimildir fyrir fram til heilbrigðiskerfisins eða annarra framkvæmda, en þó náðist samkomulag. Hins vegar fékk nefndin ekki mjög nákvæmar upplýsingar um tillögur ríkisstjórnarinnar og sóttist eiginlega ekkert sérstaklega eftir þeim. Í ljósi aðstæðna hef ég ákveðinn skilning á þessu. Það kom vel fram í umræðum nefndarinnar að enginn ætlar að svelta heilbrigðiskerfið út af því aukna álagi sem er að myndast vegna faraldursins, hvorki fyrir fram né eftir á. Það er munur á því að sækja um heimild fyrir þeim kostnaði sem maður veit um fyrir fram eða eftir á. Það er gott að fá tillögur fyrir fram til að við sjáum betur inn í framtíðina og það komi okkur ekki á óvart eftir á hver kostnaðurinn var. Það er líka ákveðið öryggi fyrir þau sem þurfa á þjónustunni að halda að vita að hún verði til staðar fyrir þau.

Ég hef skilning á þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir, þeim vanda sem framkvæmdarvaldið þarf að mæta. Ég kann að meta þann samstarfsvilja sem kom fram hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni og stíg skref á móti með því að, í anda af því að ég má það ekki tæknilega, kvitta undir nefndarálitið þrátt fyrir að fyrirvararnir séu nokkrir. Þá finnst mér mikilvægara að styðja þær framkvæmdir sem hægt var að finna sameiginlegan grundvöll fyrir. Ég geri það í þeirri von að ríkisstjórnin finni sama samstarfsvilja í framhaldinu vegna þess að án aðkomu minni hlutans hefði afgreiðsla málsins verið ansi götótt. Ég þakka sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir vinnu hans í því að ná fram þeim breytingum sem þó voru lagðar til og vona að fleiri fari að fordæmi hans á næstu vikum og mánuðum. Aðkoma minni hlutans gerði málið tvímælalaust betra og formaður nefndarinnar vann hart að því að ná svigrúmi fyrir hugmyndir minni hlutans. En betur má ef duga skal og ég bíð, ekkert of vongóður, eftir framhaldinu. Ég bíð eftir að ríkisstjórnin taki því boði sem stjórnarandstaðan hefur gefið um samstarf í þeim aðstæðum sem við glímum við. Ég tel að vísir að því samstarfi hafi orðið til í vinnu fjárlaganefndar og miðað við flutning málsins áðan í efnahags- og viðskiptanefnd er sama þar. Það gekk eins langt og það gat án samvinnu við ríkisstjórnina sjálfa. Þess vegna tek ég undir það sem kemur fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar með von um að hægt sé að stíga næstu skref í þeim erfiðleikum sem eru fram undan og vegna þess að lausnirnar eru tvímælalaust betri ef fleiri fá að koma að vinnunni. Við sjáum bara hvernig það gengur.

Ég vil orða það alveg sérstaklega hérna að ef einhver á heiður af því að það bættust við 5 milljarðar kr. í þetta fjárfestingarátak er það formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson. Það lögðu allir til hugmyndir um hvað væri hægt að gera meira og hægt að segja að þessi hafi stungið upp á einu verkefni og annar hafi stungið upp á öðru en það væri ekkert verkefni þarna nema allir væru samþykkir því og ekkert nema af því að formaður fjárlaganefndar barðist fyrir því.

Ég vil aðeins halda áfram að ræða þennan vanagang sem við erum dálítið föst í. Í stað orkuskipta yfir í sjálfbærni eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar að senda þennan ónýta sprengihreyfil á verkstæði og vonast til að hann skrölti áfram í nokkur ár í viðbót. Fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar er ætlað að steypa okkur úr aðsteðjandi vanda. Þó að það sé gott að fá breiðari brýr og göngustíga í þjóðlendur er steypa mjög tímabundin lausn til að mæta því atvinnuleysi sem nú er spáð. Meiri steypa og malbik reddar byggingaiðnaðinum til skamms tíma en það áfall sem íslenskt efnahagslíf verður nú fyrir mun orsaka atvinnuleysi víðar en bara í byggingariðnaði. Það þarf að huga betur að orkuskiptum, bæði eiginlegum og hagfræðilegum. Viðbrögð okkar við komandi vanda verða að byggjast á góðum grunni til framtíðar í stað þess að senda vélina bara í viðgerð. Við þurfum bæði að gera við og uppfæra. Þess vegna leggja Píratar áherslu á nýsköpun á sama tíma og það þarf að verja heimilin og tryggja fjármögnun og aðgang að heilbrigðiskerfinu.

Lengi hefur verið talað um fjórðu stoðina sem átti að vera nýsköpun. Í stjórnartíð núverandi valdhafa hefur þessi stoð lítið verið styrkt en nú er kjörið tækifæri til þess. Við getum boðið upp á nýsköpunarmöguleika í stað atvinnuleysis. Við getum boðið upp á uppbyggingu á fjölbreyttum tækifærum í stað þess að reyna að komast bara á sama stað og við vorum áður. Það virkaði klárlega ekki. Allir flokkarnir í minni hlutanum lögðu saman fram breytingartillögur. Píratar mæla sérstaklega fyrir hlutanum um nýsköpun og sprotafyrirtæki þó að sjálfsögðu standi allir stjórnarandstöðuflokkar að öllum breytingartillögunum. Það er mikilvægt að hafa það mjög skýrt. Við skiptum köflunum aðeins á milli okkar og kynnum þá sérstaklega og það kom í okkar hlut að kynna kaflann um nýsköpun og sprotafyrirtæki enda vildum við setja í hærri gír þar, það er einmitt tækifæri til.

Lagður er til 9,1 milljarður kr. í nýsköpun og sprotafyrirtæki þar sem stjórnarandstaðan leggur m.a. áherslu á nýsköpun, rannsóknir og skapandi greinar. Hækka á þak á endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar um 1,5 milljarða en það mun flytja fjölmörg verkefni til landsins. Setja á 1 milljarð kr. í Tækniþróunarsjóð sem myndi næstum því tvöfalda þennan lykilsjóð atvinnulífsins og bara landsins alls, þetta er lykilsjóður. Annar milljarður fer síðan í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð. Þar eru grunnrannsóknirnar og aðgengi að þeim sem Tækniþróunarsjóður getur síðan tekið við og komið áfram. Gríðarlega mikilvægt verkefni sem þar er unnið. Þá mun hálfur milljarður renna til menningar, íþrótta og lista þar sem verulegt tekjutap hefur orðið vegna faraldursins, veruleg röskun á rekstri og almennri starfsemi eins og alls staðar annars staðar en þó sérstaklega þar. Keilir og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fá 100 milljónir og loftslagssjóður og þar með talið skógrækt fá hálfan milljarð. Þá munu framlög til rannsókna og nýsköpunar í landbúnaði, sem sagt grænmetisrækt, fá hálfan milljarð. Þá leggur stjórnarandstaðan til tímabundna niðurfellingu eða lækkun tryggingagjalds upp á 4 milljarða fyrir fyrirtæki með sjö eða færri starfsmenn. Það væri mjög áhugavert að sjá það sem varanlegt úrræði í framtíðinni, eftir að nýsköpunarferlinu lýkur, þ.e. umsóknir í ýmsa sjóði og um styrki, þegar fyrirtæki er komið í gagnið með fáa starfsmenn sé það með lækkað tryggingagjald að einhverju leyti á meðan það er enn þá að byggja upp innri starfsemi sína eftir að hafa klárað styrkumsóknir.

Varðandi þessa tillögu sérstaklega þá þarf nauðsynlega, og það hefur líka komið fram frá þeim aðilum sem taka við þessum styrkjum og koma þeim í verk, að fara í gang sumarúthlutun, aukaúthlutun á árinu sem myndi nást fyrir sumarið þannig að verkefni gætu hafist strax í sumar. Það eru viðbrögð til að mæta mögulegu atvinnuleysi sem við sjáum fram á.

Ekkert af þessu er í rauninni mögulegt ef við horfum til framtíðar. Við setjum okkur framtíðarmark og reynum að byggja okkur brú þangað. Hingað til hafa ýmsir í stjórnmálum haft stöðugleikann að aðalmarkmiði, en þó er greinilegt eftir ýmis skakkaföll undanfarinna ára að draumurinn um fullkominn stöðugleika er annaðhvort gallaður eða bara hentar allt of fáum. Sá faraldur sem geisar nú sýnir okkur að stöðugleiki er í sjálfu sér vonlaust markmið. Hann helst aldrei til lengdar í landi sem má eiga von á eldgosum, faraldri, óveðri eða verðbréfabólu sem springur. Kerfi sem er byggt til að þjóna ímynduðum stöðugleika gerir ekki ráð fyrir stórum skakkaföllum. Það býr ekki í haginn fyrir tíma ójafnvægis og óstöðugleika. Betra markmið er að stefna að sjálfbærni samfélagsins, að stofnanir samfélagsins og innviðir vinni sameiginlega að öryggi og velferð íbúa. Sjálfbærir innviðir standa betur af sér hamfarir eins og dæmin sanna. Til dæmis má rekja endurtekinn rafmagnsskort á stórum svæðum í Bandaríkjunum til þess að dreifikerfið var ekki byggt með sjálfbærni að markmiði. Bilun á einum stað olli hruni úti um allt, kerfið var of tengt, svo samofið að það féll eins og spilaborg þegar það varð fyrir álagi. Sjálfbær kerfi standast betur slíkt álag því að þótt einn hluti þeirra verði fyrir álagi þá aðlagast aðrir hlutar þess í stað þess að falla. Þetta er hugsunarvilla sem við glímum við um einhvers konar hámarksvirkni sem gefur ekkert svigrúm fyrir álagspunkta. Þegar álag verður fellur allt kerfið af því að bygging þess er orðin svo samofin og hagkvæm að það þolir ekkert álag. Sjálfbær kerfi falla hins vegar ekki af því að þar er unnið út frá þeirri hugsun að það geti komið áföll, við byggjum það inn í kerfin að þau standist þau. Þannig þurfum við að hugsa til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.

Í lögum um opinber fjármál er sjálfbærni skilgreind sem svo að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Í þeim aðstæðum sem við sjáum nú myndast vegna heimsfaraldurs hugsar maður óhjákvæmilega hvernig væri hægt að gera betur. Það dugar ekki að aðeins opinberar skuldbindingar þurfi að vera sjálfbærar. Við hljótum að þurfa að hugsa sjálfbærni í miklu stærra samhengi. Hvernig gæti t.d. heilbrigðiskerfið verið sveigjanlegra og brugðist betur við tímabundnu álagi? Hvernig getur hagkerfið þolað algjört hrun í fjölda ferðamanna? Hefði sjálfbært samfélag staðist svona álag? Svarið er já, vegna þess að þó að einstaka hlutar sjálfbærs kerfis hefðu brostið hefðu aðrir hlutar þess aðlagast og hlaupið undir bagga. Þess vegna er nýsköpun mikilvæg. Gott dæmi um það er t.d. nýja stjórnarskráin varðandi grunnkerfi okkar og réttindi, sem býður upp á málskotsrétt, frumkvæðisrétt, sjálfbærni náttúru og auðlinda og margt fleira sem er grundvallaruppskriftin að sjálfbærni lýðræðissamfélags. Það er augljóst að flest ríki heimsins voru óundirbúin og illa búin til þess að takast á við faraldur af því tagi sem nú gengur yfir. Sjálfbært kerfi var ekki til staðar. Það vantaði pinna fyrir próf, hlífðarbúnað, starfsfólk og húsnæði og skýrar viðbragðsáætlanir sem hefði verið að hægt að grípa til strax á einfaldan og aðgengilegan hátt, setja í gang pinnaframleiðslu eins og var gert hjá Össuri. Hefði það verið tilbúið hefðu þeir komist fyrr í notkun. Þetta er hugmyndafræðin á bak við stafrænu smiðjurnar sem Alþingi samþykkti nýlega. Þetta er líka hugmyndafræðin á bak við klasastefnuna sem Alþingi samþykkti nýlega, að vera með framtíðarhugsun, alltaf. Í hvert skipti hugsum við um sjálfbærni fram í tímann.

Á meðan heilbrigðisstarfsfólk stendur sig vitanlega eins og hetjur í baráttu sinni við þessa heilsufarsvá þá sváfu stjórnvöld augljóslega á verðinum gagnvart hættu af því tagi. Það hefur meira að segja verið nefnt í nokkrum vísindagreinum hvernig faraldur vegna kórónuveiru, minnir mig að það hafi verið orðað, væri ákveðin tifandi tímasprengja. Þetta var í kjölfar útbreiðslu MERS og SARS, það væri aðeins tímaspursmál hvenær eitthvað á borð við þetta kæmi upp. En engin viðbrögð, engin hugsun um sjálfbærni eða sagt: Allt í lagi, ef það gerist þá erum við með viðbragðsáætlun. Nokkur lönd í heiminum sem lentu sérstaklega illa í SARS og MERS voru með viðbragðsáætlun, brugðust hratt við og hart við, kannski of hart, en kannski ekki af því að engin önnur lönd voru tilbúin. Ef allir taka þátt þurfa ekki allir að gera eins mikið. Það safnast saman.

Sjálfbærni til framtíðar er gríðarlega stórt viðfangsefni. Það hefur verið umfjöllunarefni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem skiptast í 17 flokka; enga fátækt, líf í vatni, líf á landi, frið og réttlæti og ýmislegt svoleiðis. Til viðbótar við það hefur OECD skilgreint velsældarmarkmið. Eins og segir á vefsíðu velsældarhagkerfis OECD hafa áhyggjur aukist af því að hagfræðistærðir eins og verg landsframleiðsla útskýri ekki nægilega lífsskilyrði fyrir hinn almenna borgara. Þrátt fyrir öflugan hagvöxt skilar hann sér ekki í sambærilegri aukningu á lífsgæðum. Þetta er spurning sem við eigum að spyrja okkur sjálf: Af hverju ekki? Hvar stoppar hagvöxturinn? Hvar endar hann ef hann endar ekki í jafn miklum og auknum lífsgæðum fyrir borgara heimsins?

Við þurfum nefnilega horfa til framtíðar. Það er erfitt að breyta út af vananum. Það er auðvelt að halda áfram að gera allt eins og það var gert áður. Það er sérstaklega erfitt að breyta til þegar allt lítur út fyrir að ganga vel því að þá er enginn sérstakur hvati fyrir því að ráðast í breytingar. Þá gætu breytingar meira að segja gert hlutina verri. Það efnahagskerfi sem við búum við og höfum búið við undanfarna áratugi er sveiflukennt og hefur leitt til endurtekinna krepputímabila. Ástæðurnar eru mismunandi og sumar líta út fyrir að vera eitthvað sem við hefðum getað haft stjórn á eins og hrunið 2008. Það var mannanna verk. Heimsfaraldur eins og nú geisar eða eldgos eins og þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010 er eitthvað sem við höfum ekki stjórn á. En þegar atburðir sem við höfum enga stjórn á valda skaða kennum við síður kerfinu um. Við köllum það ekki til ábyrgðar en það er samt kerfinu að kenna, kerfi sem er ekki með viðbragðsáætlanir vegna atburða sem eru í rauninni fyrirsjáanlegir. Þó að þeir séu ekki fyrirsjáanlegir í tíma er fyrirsjánlegt að þeir gerist.

Við ættum að krefjast þessarar ábyrgðar. Kerfin okkar eiga að geta brugðist við ófyrirséðum atburðum, sér í lagi óvæntum atburðum sem þó gerast reglulega eins og óveður og smitsjúkdómar. Við eigum að hanna þau á þann hátt að þau þoli álagið og geti brugðist við. Þess vegna er sérstakt tækifæri núna til að breyta og bæta. Einmitt þegar áföll verða gefast tækifæri. Það er aukið svigrúm fyrir nýjar lausnir. Það sem áður var vani og hefðir er nú tómarúm, ekki bara tómarúm þar sem störf hafa glatast heldur hefur einnig öryggi glatast. Lífið er ekki eins og það var áður og það er ekki endilega fyrirsjáanlegt að það muni verða þannig aftur fyrir mjög marga. Það hlýtur þá að vera skylda okkar að fylla í það tómarúm, en ekki með því sama og var áður því að þá lendum við bara í sömu vandamálum næst þegar það verður sambærilegt áfall. Við verðum að fylla upp í tómarúmið með einhverju nýju og betra, með kerfi sem er tilbúið til þess að takast á við tímabundin áföll, kerfi sem setur lífsskilyrði og velsæld fólks framar hagvexti, kerfi þar sem við spyrjum okkur alltaf hvort núverandi fyrirkomulag sé það besta til að þjóna hagsmunum þjóðarinnar.

Þegar við verðum fyrir áfalli hugsum við fyrst um varnir vegna þeirra sem verða fyrir skaða. Verjum réttindi þeirra sem verða fyrir áfalli og þjónustu fyrir þá. En að lokum verðum við að byggja upp til framtíðar. Í því áfalli sem við glímum við núna leggja Píratar höfuðáherslu á að verja heimilin, tryggja heilbrigðisþjónustu og styrkja nýsköpun í öllum geirum samfélagsins á öllu landinu. Áherslur Pírata sjást í nefndaráliti vegna frumvarps til fjáraukalaga og í breytingartillögum meiri hlutans þar sem fólk og réttindi þess koma fyrst, þar sem áherslan er sett á nútímalegan iðnað og að við njótum öll góðs af, ekki einungis þeir sem eru að steypa. Þar er áherslan á fólkið, að fólkið komi framar fyrirtækjum og það er heilbrigðiskerfið sem nýtur stuðnings.