150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Blessunarlega erum við með hetjur í heilbrigðiskerfinu en kannski má segja annað um fjárveitinga- og framkvæmdarvaldið. 35% fóru áður í að kaupa í matinn. Á sama tíma og það hefur kannski lagast höfum við algjörlega misst tökin á húsnæðiskostnaði. Það er gríðarlega hátt kostnaðarhlutfall, sérstaklega hjá þeim sem hafa lágar tekjur og þurfa að glíma við mjög háan leigukostnað eða yfirleitt húsnæðiskostnað.

Það sem ég sagði um hagvöxtinn var tengingin yfir í velsældarhagkerfið. Það hefur orðið þó nokkuð mikill hagvöxtur sem hefur skilað sér að mestu leyti til hæstu tekjutíundarinnar. Hann hefur vissulega skilað sér til allra tekjutíunda en langmest til þeirra sem eru með mestan pening. Það er aðallega vegna fjármagnsteknanna en samt ekki bara þótt tekjurnar hafi skilað sér mest þar. Ein af ástæðunum bak við velsældarhagkerfið er að vera með fleiri mælikvarða til að mæla árangur af því að taka ákvarðanir í þessum sal, að skoða ekki bara hvaða áhrif það hefur á hagvöxtinn heldur hvert hann skilar sér og af hverju hann skilar sér á einn stað fremur en annan, ákvarðanir sem við tökum um framkvæmdir, samgöngur þess vegna, líka í heilbrigðiskerfinu og á ýmsum öðrum stöðum. Af hverju aukast lífslíkur? Af hverju aukast lífsgæði? Er ekki bara frábært ef lífsgæði aukast þrátt fyrir minnkun hagvaxtar? Það er alveg hægt, það er kannski flókið en það er alveg hægt. Við glímum við það vandamál að þrátt fyrir að umferðarslysum hafi blessunarlega fækkað gríðarlega mikið á undanförnum áratugum erum við samt með t.d. Reykjanesbraut þar sem eru gríðarlega mörg slys og (Forseti hringir.) augljóst verkefni til að klára sem fyrst, til að fækka slysunum. Það gerist rosalega hægt.