150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir framsöguna. Ég þakka fyrir samstarfið í fjárlaganefnd. Formaðurinn hefur stýrt vinnunni ágætlega og við í minni hluta og meiri hluta náðum að vinna saman að breytingartillögum sem eru mikilvægar og fyrir það ber að þakka. Hins vegar skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara og hann er tvíþættur, þ.e. ég tel nauðsynlegt að gera betur en tekið er fram í þessu frumvarpi. Ég kem kannski betur að því á eftir. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt fyrsta skref og ég held að endurmat verði að fara fram á því hversu árangursríkur þessi svokallaði efnahagspakki er til að reyna að endurreisa hér atvinnulífið sem er nánast komið í frost vegna Covid-19 veirunnar. Það er nauðsynlegt að fram fari endurmat á árangrinum. Við sjáum vonandi á næstu dögum og vikum jafnvel hver staðan verður. Auk þess geri ég fyrirvara við brúarlánin, viðbótarrekstrarlánin með ríkisábyrgð þar sem Seðlabankinn verður nokkurs konar milliliður og fjármálafyrirtækin eiga að sjá um lánafyrirgreiðsluna. Ég kem nánar að því á eftir.

Það er rétt að segja í þessu samhengi að minni hlutinn stendur fyrir breytingartillögu og kemur með svona öfluga innspýtingu inn í þetta, verði það samþykkt, upp á eina 30 milljarða kr. Hér hefur ágætlega verið gerð grein fyrir því, hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson og Björn Leví Gunnarsson hafa báðir komið inn á þessa breytingartillögu og hvað í henni felst. Ég mun ekki rekja það neitt sérstaklega hér frekar heldur koma aðeins að því á eftir. Þessar tillögur stjórnarandstöðunnar eru viðbót við núverandi tillögur fjárlaganefndar sem eru lagðar hér fram.

Við þekkjum það að í læknisfræði er það talin áhrifamesta og besta meðferðin þegar barist er við sýkingar að gefa góðan skammt af lyfjum, sýklalyfjum ef svo má orða það, strax í upphafi meðferðar til að slá kröftuglega á sýkinguna og síðan minni skammta þar á eftir í því augnamiði að koma síðan algjörlega í veg fyrir sýkinguna. Í raun má segja að þessi veirufaraldur, farsótt sem geisar um allan heim, hafi ekki bara sýkt um 1.000 Íslendinga heldur sýkt allt efnahagslíf landsins og nánast lamað það eins og t.d. í ferðaþjónustunni og er reyndar núna búið að smitast út í margar aðrar atvinnugreinar. Það má eiginlega segja að það sama eigi við þegar við glímum við þá stöðu eða sýkingu sem upp er komin í atvinnulífinu og á við í læknisfræðinni, þ.e. það þarf stóran skammt af aðgerðum strax í upphafi og síðan minni aðgerðir þar á eftir, vonandi, til að við náum okkur aftur á strik.

Þá kem ég að því sem ég nefndi í upphafi um fyrirvara minn við nefndarálitið og þingsályktunartillöguna, það þarf að gera betur. Það þarf stóra innspýtingu, stóran skammt strax í upphafi. Við í Miðflokknum teljum einfaldlega að þetta sé ekki nægilega mikið og sama sinnis er öll stjórnarandstaðan. Vissulega var það jákvætt í starfi nefndarinnar fyrir frumkvæði formanns nefndarinnar, og það ber að þakka, að þessi innspýting sem var upphaflega upp á 15 milljarða var hækkuð í u.þ.b. 20 milljarða kr. Það er mjög jákvætt skref. Hins vegar eru, eins og ég sagði áðan, stjórnarandstöðuflokkarnir sammála um að tillögur ríkisstjórnarinnar gangi of skammt, það verði að auka frekar opinbera fjárfestingu, stuðning við nýsköpun og enn frekar nauðsynlega styrkingu velferðarkerfisins. Hagsmunaaðilar sem m.a. komu á fund fjárlaganefndar hafa bent á nauðsyn þess að þessar aðgerðir séu stærri og meiri. Þetta er skref í rétta átt sem við styðjum en við hefðum hins vegar viljað sjá meira, eins og ég nefndi í upphafi.

Hinn fyrirvarinn af minni hálfu lýtur að brúarlánunum. Hér fyrr í dag fór ég aðeins yfir þá algjöru nauðsyn að fullkomið gagnsæi ríkti í þessari lánveitingu. Höfum í huga að það er almenningur í landinu sem er að lána fyrirtækjum sem eiga nú við erfiðleika að stríða. Það verður að koma í veg fyrir einhvers konar mismunun milli fyrirtækja í þessum efnum. Sum fyrirtæki munu ekki nýta sér þau úrræði sem eru í boði, heldur munu berjast í bökkum á eigin forsendum og nýta sér ekki úrræðin sem eru í boði eins og hlutastörfin. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt og það ber að þakka. Svo eru önnur fyrirtæki sem nýta sér þetta og eins og maður hefur séð í fjölmiðlum þá orkar tvímælis hvort þau ættu í raun og veru að nýta sér þessi úrræði þegar þau hafa greitt háar arðgreiðslur fyrir ekki svo löngu.

Það þarf að tryggja að engin mismunun verði milli fyrirtækja í þessum efnum og þetta þarf allt að vera uppi á borðunum. Ég nefndi einnig fyrr í dag hvað t.d. Bandaríkjaþing var að gera, þann gríðarlega efnahagspakka sem það hefur samþykkt. Þar er skilyrði fyrir því að almenningi verði gert ljóst hvaða fyrirtæki njóta slíkrar lánafyrirgreiðslu. Þessu hefur verið velt upp hér og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson spurði hv. þingmann, formann fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, einmitt út í það hvort hann teldi ástæðu til þess að sami háttur væri hafður á hér og ég gat ekki skilið formann fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, betur en svo hann væri hlynntur því að þetta væri allt uppi á borðunum enda eru Íslendingar brenndir eftir efnahagshrunið 2008. Það má ekki ríkja nein leyndarhyggja og þess vegna er ákaflega mikilvægt að samningurinn sem á að gera milli Seðlabankans og fjármálafyrirtækjanna verði með þeim hætti að hann tryggi alveg fullkomið jafnræði milli fyrirtækja, gagnsæið og allt sem á að vera uppi á borðum í þessum efnum.

Minn fyrirvari lýtur að því að fá að sjá þennan samning. Hann verður lagður fyrir nefndina sem er náttúrlega mjög jákvætt en ég tel einnig nauðsynlegt að samningurinn verði lagður fyrir þingið og menn geti rætt hann í þingsal og komið með sínar athugasemdir ef einhverjar eru. Við megum ekki gleyma því að gríðarlegir fjármunir eru lagðir í þetta, u.þ.b. 50 milljarðar kr., það eru gríðarlegir fjármunir.

Ég vil auk þess koma aðeins að heilbrigðisstarfsmönnum. Álag á heilbrigðisstarfsfólk vegna þessarar veirusýkingar er gríðarlegt. Framlínufólkið sem er að sinna þeim sjúklingum sem eru smitaðir af Covid-veirunni er margt hvert undir gríðarlegu álagi og þess vegna leggjum við í minni hlutanum til að sérstök álagsgreiðsla verði til þeirra starfsmanna sem sinna umönnun og heilbrigðisþjónustu til Covid-smitaðra einstaklinga, eingreiðsla upp á 200.000 kr. Það er rétt að taka fram að aðrar þjóðir eru að gera þetta. Það sem er náttúrlega þyngra en tárum tekur í þessu öllu saman er að horfa upp á að við þetta góða heilbrigðisstarfsfólk sem við eigum skuli ekki vera búið að ljúka samningum. Samningar við hjúkrunarfræðinga eru búnir að vera lausir í næstum því heilt ár. Það er ákaflega dapurlegt og skilaboðin til þessa starfsfólks undir þessum kringumstæðum eru engan veginn ásættanleg, að ekki skuli vera búið að semja við fólk sem við reiðum okkur svona gríðarlega mikið á undir slíkum kringumstæðum.

Ég vil nota tækifærið, herra forseti, og hvetja ríkisstjórnina til að ljúka núna samningum við heilbrigðisstarfsfólk, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður sjúkraliða og fleiri starfsstéttir. Það eru lausir samningar hjá þeim. Það verður að leysa þetta mál og ég hvet ríkisstjórnina eindregið til þess.

Auk þess vildi ég koma aðeins inn á það að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt okkur öll fram við það að ná þverpólitískri samstöðu innan Alþingis um nauðsynlegar aðgerðir. Samstarfið í nefndinni var gott. Við vildum og teljum einfaldlega nauðsynlegt að ganga lengra. Hæstv. fjármálaráðherra hefur einmitt sagt að það sé betra að gera meira strax í upphafi en minna. Um það snúast einmitt tillögur okkar, við teljum nauðsynlegt að fara í mun öflugri aðgerðir strax í upphafi. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa náð saman í þessu. Það eru mjög ánægjulegar fréttir. Okkur gekk mjög vel að vinna þessar tillögur. Við megum alls ekki missa sjónar af takmarkinu sem er vernd og uppbygging íslensks atvinnulífs og svo heilsa og velferð borgaranna.

Tillögur okkar eru í fjórum liðum og ég ætla ekkert að fara neitt sérstaklega yfir þær að öðru leyti en því að það er tillaga um hækkun varðandi nýsköpun og sprotafyrirtæki upp á rúma 9 milljarða kr., vegaframkvæmdir og viðhald um 9 milljarða kr.

Ég vil nefna aðeins hér að uppleggið í þessu er að verið sé að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir. Við megum heldur ekki missa sjónar á því. Varðandi samgönguþáttinn leggjum við til u.þ.b. 9 milljarða í þann málaflokk til viðbótar. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru upp á um 6,5 milljarða. Hins vegar er Vegagerðin tilbúin í framkvæmdir á þessu ári fyrir um 11 milljarða kr. Það á að sjálfsögðu að nýta það svigrúm sem við höfum þar vegna þess að það skiptir verulegu máli að innspýtingin komi hér og nú og að verkefni eru tilbúin. Ég hef upplýsingar um að Vegagerðin sjái sér fært að fara í framkvæmdir á þessu ári fyrir u.þ.b. 11 milljarða kr. þannig að þar er svigrúm til að setja pening í það svo hægt sé að fullnýta þau verkefni sem eru þá tilbúin.

Síðan erum við með tillögu um fasteignir og aðrar fjárfestingar upp á 4,6 milljarða og velferðarmál upp á 7,3 milljarða. Allt eru þetta fínar og vel unnar tillögur og ég hvet stjórnarliða til að styðja þær vegna þess að það getur verið tjón að bíða of lengi. Stjórnarmeirihlutinn hefur sagt að gert verði endurmat á stöðunni og að önnur innspýtingin komi síðar. Hún má heldur ekki koma of seint. Þess vegna er betra að gera meira nú og sjá til þess að hjól atvinnulífsins nái sér fyrr af stað.

Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni stöðu mála á Suðurnesjum. Nýjustu fréttir þar eru að atvinnuleysi sé komið í u.þ.b. 14%. Fyrir þetta áfall var atvinnuleysið orðið um 10% á Suðurnesjum. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa sagt að svo geti farið að atvinnuleysi fari upp í 20% á Suðurnesjum. Það er gríðarlega hátt og við því verður að bregðast með öflugum hætti. Við þingmenn af Suðurnesjum höfum margrætt það hér að Suðurnesin hafi verið afskipt og að stofnanir þar hafi ekki fengið lögbundnar fjárveitingar með þeim hætti sem þeim ber vegna þeirra fordæmalausu fólksfjölgunar sem hefur átt sér þar stað. Nú standa þau frammi fyrir þessu áfalli og þessu mikla atvinnuleysi.

Ég tel því miður að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar sé engan veginn nægilegur fyrir Suðurnesin. Þar stendur til að ráðast í framkvæmdir við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrir u.þ.b. 200 millj. kr. sem er að sjálfsögðu jákvætt verkefni en betur má ef duga skal. Það er aukið hlutafé til Isavia sem er einnig jákvætt, en jafnframt berast neikvæðar fréttir frá Isavia. Hjá fyrirtækinu er verið að segja upp fólki sem kemur á óvart hvað brestur snögglega á. Í ljósi þess að eiginfjárstaða þessa fyrirtækis hefur verið mjög góð og maður hefur talið þetta mjög öflugt fyrirtæki kemur á óvart að það skuli strax skella sér í uppsagnir núna rétt eftir áramót. Það eru vissulega vonbrigði. Sú hlutafjárinnspýting sem fyrirtækið fær í gegnum þetta frumvarp, verði það að lögum, er að sjálfsögðu jákvæð til þess að það geti farið í einhverjar verklegar framkvæmdir. Það verður einnig að huga að þeim úrræðum sem við höfum gagnvart þeim sem eru atvinnulausir og þar viljum við í minni hlutanum sjá fjárveitingu og erum með tillögu um fjárveitingu til Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum sem er ákaflega mikilvæg stofnun og sömuleiðis Keilis sem er mikilvæg menntastofnun. Ég lagði grunn að því að þetta yrði gert innan fjárlaganefndar. Því miður fór það ekki í gegn vegna þess að þetta er úrræði sem skiptir verulegu máli. Ég verð að segja að það voru vonbrigði, herra forseti, að það skyldi ekki nást í gegn. Við þurfum að fylgjast mjög vel með Suðurnesjunum og sjá til þess að við höldum vel utan um þau vegna þess að þar er staðan mun verri en víðast hvar annars staðar.

Síðan er líka nauðsynlegt að við hugum að þeim sem hafa verið á atvinnuleysisskrá, voru búnir að missa starfið áður en þetta áfall dundi yfir og sjá jafnvel fram á það að tímabilið sem þeir geta verið á atvinnuleysisskrá sé að renna út. Við þurfum að halda utan um þennan hóp og það þarf að lengja það tímabil sem er heimilt að vera á atvinnuleysisskrá eins og gert var í hruninu. Það er mikilvægt úrræði sem við verðum að horfa til.

Aðeins varðandi hlutastörfin að lokum. Tugþúsundir Íslendinga eru að nýta sér það úrræði. Að sjálfsögðu er það mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð en það er mikilvægt úrræði. Ég hef áður lagt áherslu á það og hvet þau fyrirtæki sem þurfa ekki á þessu að halda og sjá að þau geta komist í gegnum þessa erfiðleika án þess, að hugsa um að þetta er sameiginlegur sjóður okkar allra, ríkissjóður sem við verðum að umgangast af virðingu. Það er líka spurning hvort ekki sé hægt að nýta það fólk sem er komið heim, þ.e. er heima og í 25% starfi, að nýta það til nýsköpunar með einhverjum hætti, þróa hugmyndir o.s.frv. Þetta er eitthvað sem er vel þess virði að skoða. Það eru þúsundir Íslendinga sem eru heima við núna sem fá greiðslur í gegnum þetta kerfi og spurning hvort ekki væri hægt að nýta það fólk til að þróa hugmyndir og annað slíkt heima við. Það er öllum til hagsbóta.

Að lokum vil ég segja að það er mjög mikilvægt að þau framlög sem koma í gegnum þennan aðgerðapakka nýtist sem best. Við verðum að fylgjast vel með því að þau skili þeim árangri sem við erum að óska eftir, fjölgun starfa, eflingu atvinnustigsins og að koma efnahagskerfinu í gang (Forseti hringir.) aftur. Þetta er það sem við þurfum að fylgjast mjög vel með að nýtist sem allra best. Það er alveg ljóst að sá pakki sem hér er til afgreiðslu dugir hvergi nærri að okkar mati en er gott fyrsta skref. Við í Miðflokknum erum reiðubúin í allt samstarf í þeim efnum.