150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð og fyrir samstarfið sem hefur verið mjög gott. Ég þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir að vera opinn fyrir því að minni hlutinn kæmi að þessari vinnu með öflugum hætti. Það hefur gengið eftir. Hins vegar teljum við ekki nógu langt gengið, hv. þingmaður er náttúrlega á sömu skoðun en gefur til kynna að þá komi viðbótarframlög og að ekki sé svo langt í þau.

Ég árétta að full samstaða er um það innan nefndarinnar varðandi viðbótarrekstrarlán, öðru nafni brúarlánin, að skilyrðin verði með þeim hætti að engin tortryggni verði við afgreiðslu þessara lána, að allt verði uppi á borðum og gagnsæi ríki. Við erum öll sammála um það en við höfum hins vegar ekki séð þennan samning, hann verður lagður fyrir nefndina og það er afar brýnt að við fáum góðan tíma til að fara yfir þau skilyrði sem þar eru sett. Sú nefnd sem stendur til að skipa til að hafa eftirlit með þessu verður að vera skipuð fagfólki sem þekkir vel til þessara mála. Við reiðum okkur að sjálfsögðu á það og þá skýrslugerð og eftirfylgni sem kemur í framhaldinu. Við erum öll á sömu línu hvað þetta varðar. Við þurfum bara að sjá til þess að við grípum inn í fjárlaganefnd ef samningurinn uppfyllir ekki öll þau skilyrði sem við höfum rætt og að þá þurfi að sjálfsögðu að grípa inn í það og sjá til þess að svo verði. (Forseti hringir.) Það er afar mikilvægt í mínum huga. Þessi lánafyrirgreiðsla er stór og mikil aðgerð og við megum ekki gleyma að hún er á kostnað skattgreiðenda.